RB, Reiknistofa bankanna, hefur skrifað undir samstarfssamning við danska félagið Swipp, um innleiðingu á nýrri lausn fyrir farsímagreiðslur hér á landi. Um er að ræða lausn sem gerir einstaklingum kleift að nýta farsímann til að greiða í verslun, millifæra og innheimta greiðslur. Hún er frábrugðin öðrum lausnum að því leyti að greiðslur fara beint af innlánareikningi greiðanda yfir á innlánareikning móttakanda í stað þess að nota kredit- eða debetkortakerfin. Swipp er í eigu 72 danskra banka og segir samstarfsamningurinn jafnframt til um það að þær viðbætur sem RB byggir við kerfið hérlendis geti einnig nýst á öðrum mörkuðum.

RB vinnur að innleiðingu lausnarinnar hér á landi og hefur hún ýmsa kosti umfram hefðbundin kortaviðskipti líkt og aukið öryggi greiðslna en önnur tæknihögun útilokar nær öll sviksemistilvik sem þekkt eru í kortaviðskiptum í dag. Jafnframt berast greiðslur verslunum strax við kaup á vörum og þjónustu. Í hefðbundnum kortaviðskiptum getur endanlegt uppgjör átt sér stað nokkrum dögum síðar. Ennfremur er kostnaður við þessa nýju greiðsluleið lægri þar sem að miðlun greiðslna verður einfaldari.

„Samstarfið við Swipp hefur gengið vonum framar. Það tók eingöngu tvo daga að tengja lausnina við innlánakerfi RB þannig að hægt væri að framkvæma farsímagreiðslur beint af innlánareikningi. Í sumar hefjast prófanir á greiðslum á posa í verslunum. Við stefnum að því að lausnin verði tekin í notkun í haust,“ segir Friðriki Þór Snorrasyni, forstjóri RB.

„Þróunarverkefnið með RB hefur staðfest verðmæti og skilvirkni þeirrar tækni sem hefur verið þróuð hjá Swipp.  Félagið hefur í raun búið til brautarteinana sem þurfa að vera til staðar til að farsímagreiðslur virki á milli einstaklinga, verslana og banka. Það er ljóst að tæknin að baki Swipp á fullt erindi inn á aðra markaði, “ segir Martin Andersen, forstjóri Swipp.