Bretar hafa verið duglegri að varðveita togarasögu sína en Íslendingar. Nefna má sem dæmi að í Hull hefur síðutogarinn Arctic Corsair, sem kom við sögu í þorskastríðunum við Ísland, verið gerður að safngrip, en hérlendis hefur enginn síðutogari verið varðveittur í sinni upprunalegu mynd.

Nú hefur verið stofnaður sjóður í Bretlandi, Viola Trust, sem hefur það markmið að safna peningum til þess að unnt sé að endurheimta gufutogarann Viola, sem liggur illa á sig kominn á strönd Suður-Georgíu sem er eyja í Suður-Atlantshafi norðan við Suðurheimskautslandið. Ætlunin er að flytja hann til upphaflegar heimahafnar sinnar í Hull, gera hann þar upp og setja á safn. Áætlað er að verkefnið í heild kosti um þrjár milljónir sterlingspunda eða jafnvirði rúmlega 400 milljóna íslenskra króna.

Viola, sem smíðuð var árið 1906, á sér æði fjölbreytta sögu. Skip og skipshöfn tóku m.a. þátt í fyrri heimstyrjöldinni, eftir kvaðningu af hálfu breska flotamálaráðuneytisins, og hjálpuðu til við að sökkva tveimur kafbátum. Eftir stríðið fór Viola víða um heim sem togari, hvalveiðiskip, selveiðiskip og rannsóknaskip. Árið 2015 varð skipið þess heiðurs aðnjótandi að vera myndefni á frímerki.

Frá þessu er skýrt á vefnum World Fishing.