Öryggismiðstöðin gerði nýverið samning við Sjúkratryggingar Íslands um viðgerðarþjónustu á öllum hjálpartækjum í eigu stofnunarinnar. Í kjölfarið hefur fyrirtækið sett á laggirnar nýtt og tæknivætt verkstæði sem mun sjá um alla viðgerðarþjónustu fyrir hjálpartæki sem aldraðir og fatlað fólk notar.  Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Það hefur verið mjög mikið að gera á verkstæðinu fyrstu dagana eftir að við opnuðum hér og mikill fjöldi tækja þegar borist til okkar sem þarf að gera við. Við tökum á móti öllum stærðum og gerðum hjálpartækja. Við munum kappkosta að veta sem besta þjónustu og fólk mun ekki þurfa að fara á milli staða til að leita að aukahlutum. Það kemur með tækin til okkar og við sjáum um að ná í allt sem vantar og gera við. Það eru mörg þúsund hjálpartæki í notkun hér á landi þannig að það er ljóst að þörf er á góðri viðgerðarþjónustu því öll tæki eiga það til að bila eins og við þekkjum. Á undanförnum árum hefur notendum hjálpartækja fjölgað verulega og fyrirsjáanleg er mikil fjölgun eldri borgara sem mun kalla á aukna þjónustu í nánustu framtíð,” segir Jón Eiríksson, viðskiptastjóri hjá Öryggismiðstöðinni. Nýja verkstæði er staðsett í höfuðstöðvum fyrirtækisins að Askalind 1.

Jón segir að samningurinn sem fyrirtækið gerði nýverið við Sjúkratryggingar Íslands breyti miklu og þýði í raun aukna þjónustu fyrir aldraða og fatlað fólk varðandi öll hjálpartæki. „Öryggismiðstöðin er eina fyrirtækið sem mun þjónusta öll hjálpartæki fyrir Sjúkrastryggingar Íslands. Við munum auk þess bjóða upp á neyðarþjónustu með öryggisbakvakt alla daga vikunnar frá klukkan 7 á morgnana til miðnættis," segir hann.

Öryggismiðstöðin hefur um langt árabil boðið upp á öryggishnappa fyrir aldraða, sjúka og fatlað fólk. Á síðustu árum hefur fyrirtækið bætt í vöruframboð sitt margvíslegum velferðartæknilausnum sem gera öldruðum, sjúkum og fötluðu fólki kleift að búa lengur heima. „Öryggishnappurinn var upphafið af þessari þjónustu og í kjölfarið höfum við bætt við fjölmörgum öðrum hjálpartækjum fyrir þennan hóp. Í vöruframboði okkar má finna ýmsar tæknilausnir eins og rafknúna hjólastóla, rafskutlur, hjúkrunarrúm, lyftibúnað og allt upp í mjög sérhæfðar og tæknilegar lausnir eins og augnstýrðar tölvur sem nota má til tjáskipta og umhverfisisstjórnunar,” segir Jón enn fremur.