Undirdómstóll í Bretlandi komst að þeirri niðurstöðu á dögunum að þrotabú Kaupþings hefði ekki haft atkvæðarétt á kröfuhafafundi þar sem kosið var um nauðasamning við athafnamanninn víðfræga Moises Gertner.

Nafn Gertner-fjölskyldunnar er ef til vill mörgum kunnugt enda skaut það gjarnan upp kollinum í tengslum við uppgjörið á bankahruninu og þá að jafnaði vegna viðskipta bræðranna Moises og Mendi við Kaupþing. Dómurinn gæti leitt til þess að bú Moises Gertner verði tekið til gjaldþrotaskipta. Aðrir kröfuhafar mótmæltu aðkomu Kaupþings að fundinum og sögðu Gertner hafa samið sérstaklega við þrotabú bankans utan hans og leynt því fyrir öðrum kröfuhöfum. Kröfurnar á hendur Moises Gertner nema allt að 80 milljörðum króna en sjálfur segist hann vera eignalaus og kröfuhafar fái því lítið fyrir sinn snúð verði hann gerður gjaldþrota, sem er staðhæfing sem margir efast um.

Rúmlega 80 milljarða króna kröfur

Árið 2015 krafðist félagið CFL Finance Limited (CFL) þess að Moises Gertner yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli rúmlega 12 milljóna punda kröfu, eða sem nemur tæplega 1,7 milljörðum íslenskra króna. Eftir að hafa ráðfært sig sérfræðinga, sem einnig var stefnt í málinu, ákvað Gertner að freista þess að fá kröfuhafa til að samþykkja nauðasamning með það fyrir augum að komast hjá gjaldþroti.

Þrír kröfuhafar voru stærstir og námu samningskröfur á hendur Gertner rúmum 582 milljónum punda, eða sem nemur rúmlega 80 milljörðum króna, miðað við núverandi gengi. Ljóst er að um er að ræða gríðarlega háar upphæðir, sérstaklega þegar litið er til þess að hér er um að ræða kröfu á hendur einstaklingi en ekki fyrirtæki. Þrotabú Kaupþings átti 90,43% af umræddum kröfum en hinir kröfuhafarnir tveir, þar á meðal CFL, áttu samanlagt 2,15% hlutdeild.

Kveðst vera eignalaus

Fyrrgreindur nauðasamningur fól í sér að utanaðkomandi þriðji aðili myndi leggja til 487.500 pund sem myndu skiptast hlutfallslega á milli kröfuhafa en afgangurinn af 582 milljónunum myndi falla niður. Í samningsdrögunum sem Gertner lagði fyrir kröfuhafa kvaðst hann vera eignalaus og með hófleg laun og það væri því vænlegra fyrir kröfuhafa að ganga að samningnum enda fengju kröfuhafar lítið sem ekkert upp í kröfur sínar yrði hann úrskurð­ aður gjaldþrota.

Í kjölfarið var því boðað til kröfuhafafundar með það að markmiði að kjósa um hvort gengið skyldi að nauðasamningnum eða taka bú Gertners til gjaldþrota. Fundurinn var haldinn þann 17. desember árið 2015 og sýnir fundargerðin að nauðasamningurinn var samþykktur af 97,85% kröfuhafa sem mættu á fundinn og skipti atkvæði þrotabús Kaup­ þings þar höfuðmáli.

Hinir kröfuhafarnir tveir, CFL þar á meðal, höfnuðu hins vegar samninginum og því ljóst að samkomulagið hefði ekki komist á ef ekki hefði verið fyrir atkvæði Kaupþings. CFL ákvað hinsvegar að fara með málið fyrir dómstóla á þeim grundvelli að þrotabú Kaupþings hafi ekki verið með atkvæðisrétt á fundinum þar sem bankinn væri ekki eiginlegur kröfuhafi því Gertner hafði þá þegar samið um betri kjör við þrotabúið utan fundarins. Atvæðið væri því ekki gilt og bæri að kjósa aftur um samninginn.

Gekkst persónulega í ábyrgð fyrir skuldir fjölskyldufyrirtækjanna

Í dómnum er vísað til þess að nafn Gertner-fjölskyldunnar hafi löngum verið tengt við umtalsverð auðæfi og að sögn stefnanda eru þau flest að finna í félögum og sjóðum fjölskyldunnar víðs vegar um heiminn en Moises Gertner sagðist þó hafa lítinn sem engan aðgang að þeim eignum sjálfur.

Í dómnum er rifjað upp að í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008 hafi mörg af fyrirtækjum fjölskyldunnar, sem Gertner stjórnar, orðið fyrir áföllum. Kröfurnar á hendur honum eru flestar tilkomnar vegna persónulegra ábyrgða sem hann undirgekkst vegna skuldbindinga fyrirtækjanna, þar á meðal kröfur þrotabús Kaupþings. Tengjast þær lánveitingum Kaupþings til fjárfestingarfélagsins Crosslet Vale Limited sem skráð er á Gíbraltar og er í eigu Gertner-fjölskyldunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .