Hagspá ASÍ gerir ráð fyrir kraftmiklum vexti einkaneyslunnar eða 6,0% á þessu ári og gangi spáin eftir verður einkaneyslan á þessu ári í fyrsta sinn meiri en fyrir hrun. Þótt hægja muni á vexti einkaneyslunnar verður hann engu að síður allnokkur á árunum 2017–2018 eða að jafnaði um 3,9% á ári.

Í hagspá hagdeildar ASÍ segir jafnframt að fjárhagsstaða heimilanna hefur þróast til betri vegar undanfarin tvö ár og útlit sé fyrir að neysla heimilanna nái á þessu ári sömu hæðum og árið 2007. Einkaneysla jókst umtalsvert á síðasta ári eða um 4,8% og var sú þróun í takt við væntingar hagdeildar. Vöxturinn magnaðist eftir því sem leið á síðasta ár, var 4% á fyrsta ársfjórðungi en jókst í 6,1% á fjórða ársfjórðungi.

Hagspáin sem birt var nýlega metur horfur í efnahagslífinu bjartar um þessar mundir og gangi spá hagdeildar eftir verður samfelldur hagvöxtur hér á landi í 8 ár. Spáð er kraftmiklum hagvexti á þessu ári, 4,9%, og að jafnaði 3,8% vexti á árunum 2017–2018. Vöxturinn hvílir á vaxandi kaupmætti, uppgangi í ferðaþjónustu og aukinni fjármunamyndun atvinnuveganna og sést bæði í auknum þjóðarútgjöldum og áframhaldandi vexti útflutnings.