Isavia, sem er opinbert hlutafélag, kynnti þróunaráætlun vallarins í síðasta mánuði. Samkvæmt henni var gert ráð fyrir að um yfir 6 milljónir farþega færu um Leifsstöð árið 2018. Nú er ljóst að forsendurnar, sem lágu að baki þeim útreikningum, voru rangar því Isavia kynnti í gær nýja farþegaspá. Í henni er gert ráð fyrir 6,25 milljónum farþega á næsta ári, sem er 28,4% aukning miðað við þetta ár.

Næsta sumar verður flugstöðvarbyggingin um 16% stærri en hún var í byrjun þessa árs, eða um 65.000 fermetrar. Að auki verða opnuð þrjú ný flugvélastæði.

„Það er talið gott ef aukning á farþegafjölda milli ára eykst um 3 til 7%, segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. "Hjá okkur verður aukningin tæplega 30% og það segir sína sögu. Þetta er að gerast miklu hraðar en við bjuggumst við. Enginn flugvöllur í Evrópu er með jafnmikla aukningu hlutfallslega milli ára.

Ef ég hefði sagt árið 2010, þegar ég sótti um starf forstjóra, að ég myndi tryggja að árið 2016 myndu sex milljónir farþega fara í gegnum flugstöðina þá hefði ég verið talinn galinn og líklega ekki verið ráðinn."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .