*

miðvikudagur, 23. janúar 2019
Innlent 26. júní 2013 12:33

Geta ekki fullyrt um hagkvæmni sæstrengs

Ráðgjafarhópur sem skoðaði hagkvæmni lagningu sæstrengs héðan til Evrópu segir margt enn ógert.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Að svo komnu máli er því að mati ráðgjafarhópsins ekki unnt að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja sæstreng milli Íslands og Bretlands. Hins vegar eru vísbendingar um að slík framkvæmd gæti reynst þjóðhagslega arðsöm að nokkrum skilyrðum uppfylltum, að því er fram kemur í niðurstöðum tillagna ráðgjafarhóps sem skoðaði hagkvæmni þess að leggja sæstreng frá Íslandi til Evrópu. Ráðgjafarhópurinn telur rétt að haldið verði áfram að kortleggja alla þætti verkefnisins hér innanlands um leið og leitað verði svara um möguleg rekstrar- og eignarhaldsmódel hjá viðsemjendum í Bretlandi.

Hópurinn segir ennfremur að veigamiklar breytur séu enn háðar umtalsverðri óvissu. Þær sé hægt að afmarka betur með frekari rannsóknum og viðræðum við mögulega samningsaðila. Með sama hætti segir hópurinn að unnt verði að minnka óvissu s.s. með áætlun um áhrif á orkuverð innanlands, hugsanleg ruðningsáhrif og aukningu þjóðartekna.

Þá segir hópurinn að iðnaðarráðuneytið eða Orkustofnun greini sviðsmyndir mögulegrar orkuöflunar og virkjanaraðar í samræmi við aðferðarfræði rammaáætlunar fyrir mismunandi flutningsgetu tengingar, að Landsnet fái heimild til að hefja viðræður, í samstarfi við Landsvirkjun og eftir atvikum  aðra raforkuframleiðendur, við viðeigandi rekstraraðila flutningskerfis (e.Transmission System Operator) í Bretlandi og eftir atvikum bresku orkustofnunina Ofgem, um tengingu flutningskerfanna, viðskiptalíkan og eignarhald sæstrengs. Jafnframt er lagt til að Landsnet og Landsvirkjun kanni leiðir til fjármögnunar á undirbúningsrannsóknum og hugi að hugsanlegu samstarfsfyrirkomulagi vegna sæstrengsins.

Niðurstöður og tillögur ráðgjafarhópsins

Stikkorð: Sæstrengur