*

þriðjudagur, 19. júní 2018
Innlent 23. mars 2017 08:23

Geta greitt sér 70 milljarða

Eigendur Arion banka geta lækkað eiginfjárstöðu bankans niður í lögbundið lágmark og greitt sér allt að 70 milljarða arð.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Með því að endurskipuleggja fjármagnsskipan Arion banka, geta eigendur hans greitt sér allt að 70 milljarða króna arð, en eiginfjárstaða bankans er mjög sterk um þessar mundir.

Nam hún ríflega 211 milljörðum króna um áramótin, og stóð eiginfjárhlutfallið í 27,1%, meðan eiginfjárkröfurnar sem ríkið krefst nemur 20,7%, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Að auki er bankanum heimilt að gefa út víkjandi skuldabréf til að mæta nokkrum hluta eiginfjárkröfunnar, og sýndu forsvarsmenn bankans fram á það þegar ársuppgjör bankans var birt að hagstæð samsetning eiginfjár gæti falist í að hlutfall hefðbundins eigin fjár stæði í 16,8% en aðrir hlutar þess í 5,8%.

Í skýrslu frá aðalfundi bankans sem haldinn var nýlega er sagt að ákveðið hafi verið að greiða ekki út arð að sinni, „en stjórn bankans hefur víðtæka heimild til að leggja fram tillögu um arðgreiðslu eða aðra ráðstöfun eigin fjár og því mun stjórnin mögulega boða til aukahluthafafundar síðar á árinu þar sem tillaga um slíka ráðstöfun yrði lögð fyrir.“