Tveir framleiðendur landbúnaðarvara eiga umtalsverðan tollkvóta, sem veitir þeim rétt til tollfrjáls innflutnings á sömu vörum og þeir framleiða. Innflutningsfyrirtækið Mata fékk úthlutað 70% af tollkvóta á svínakjöti frá Evrópusambandinu á þessu ári. Á meðal systurfyrirtækja Mötu er Síld og fiskur hf., sem er stærsti svínakjötsframleiðandi landsins og hefur næstum því helmingshlutdeild á svínakjötsmarkaðnum.

Mata á jafnframt 8% tollkvóta vegna alifuglakjöts en annað systurfyrirtæki Mötu, Matfugl, er umsvifamikill framleiðandi á þeim markaði. Þá á Mjólkursamsalan um 29% tollkvóta á ostum vegna samninga við Alþjóðaviðskiptastofnunina og 13% tollkvóta vegna innflutnings á ostum frá Evrópusambandinu.

Vilja ekki endilega nýta allan kvótann

Úthlutun tollkvóta til framleiðenda vekur spurningar um stöðu þeirra á markaðnum og hvort hægt sé að nýta fyrirkomulagið við úthlutun tollkvóta til að hafa áhrif á verð. Félag atvinnurekenda hefur meðal annarra gagnrýnt fyrirkomulagið. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri félagsins, sagði í samtali við Viðskiptablaðið á dögunum að uppboð tollkvóta leiði af sér að innlendum framleiðendum sé í lófa lagið að bjóða hátt í kvótann og hækka þannig verðið á innflutningnum.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, að ef stærsti framleiðandi svínakjöts sé jafnframt stærsti eigandi tollkvóta sé það til þess fallið að herða tök hans á markaðnum. Það þurfi ekki endilega að vera hans hagur að nýta allan kvótann. Aðspurður segir Sigurður að ef markmiðið með tollkvótum sé að auka fjölbreytni meðal seljenda á markaðnum væri æskilegra að kvótinn færi til einhverra annarra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .