Fagfjárfestum gefst í fyrsta sinn kostur að kaupa skuldabréf hjá Félagsbústöðum í vetur. Félagsbústaðir hyggjast gefa út skuldabréf að andvirði þriggja til fimm milljarða króna til að fjármagna fyrirhugaðar framkvæmdir og kaup á nýjum íbúðum. Þetta kemur fram í frétt RÚV um málið. Félagsbústaðir eiga og reka félagslegt húsnæði í Reykjavík og er að fullu í eigu borgarinnar. Í dag eiga Félagsbústaðir um 2.500 íbúðir en gert er ráð fyrir því að fjölga þær talsvert.

Í samtali við Auðun Frey Ingvarsson, framkvæmdastjóra Félagsbústaða, kemur fram að töluverðar breytingar hafa orðið á lagaumhverfinu þegar kemur að fjármögnun félaga á borð við Félagsbústaði. Félagið hyggst hætta því að taka lán hjá Íbúðalánasjóði til að fjármagna nýbyggingu. Ríki og borg munu koma til með að leggja til stofnframlög sem leiða til þess að félagið þurfi að fjármagna skuldir sínar með nýjum hætti.

Stefnt er að fyrsta skuldabréfaútboði stofnunarinnar í nóvember eða desember. Í kjölfarið verður ráðist í að fjármagna byggingu nýrra íbúða og kaup á nýjum íbúðum. „Þessi skuldabréf verða boðin þeim sem eru fagfjárfestar eingöngu. Og þau eru boðin út á skuldabréfamarkaði eins og hver önnur skuldabréf og þeir sem hafa áhuga geta keypt,“ sagði Ævar í samtali við Ríkisútvarpið.

Hækkuðu leigu um 5%

Í sumar var greint frá því að borgarráð hafi samþykkt að hækka leigu hjá Félagsbústöðum um 5% umfram verðlagsbreytingar frá og með 1. ágúst. Ástæðan var að rekstur fyrirtækisins stæi ekki undir afborgunum lána á síðasta ári. Skýringin á þessari stöðu felst að miklu leyti í hækkun fasteignaverðs. Félagsbústaðir hafa þurft að taka hærri lán til að fjármagna nýjar fasteignir á meðan leigutekjur hafa ekki aukist að sama skapi þar sem að verðið er bundið við verðbólgu.

Árið 2016 var afkoma Félagsbústaða jákvæð um 10.777 milljónir króna. Sá „hagnaður“ kom að mestu leyti til vegna virðisbreytinga sem að orsakast af hærra fasteignaverði. Matsbreyting fjárfestingaeigna félagsins nam til að mynda 10.942 milljónir króna í fyrra, sem að skilar sér ekki sem eðlilegur hagnaður. Rekstrartekjur Félagsbústaða hf. á árinu 2016 námu 3.303 milljörðum króna sem er 4,4% aukning tekna á milli ára aðallega vegna verðlagshækkunar leigu og stækkunar eignasafnsins. Rekstrargjöld námu samtals 1.785 milljónir króna og hækkuðu um 7,5% milli ára.