Benedikt Gíslason og Sigurður Hannesson eru varaformenn í framkvæmdahópi stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem kynnti tillögur sínar í þá veru í síðustu viku. Þeir, ásamt öðrum í hópnum, hafa unnið hörðum höndum við að undirbúa næstu skref í málinu.

Það kom fram í kynningunni að aðgerðir stjórnvalda yrðu til þess að almenningur ætti ekki lengur að finna fyrir höftunum. Getið þið skýrt þetta nánar?

Benedikt svarar: „Með þessum aðgerðum er verið að skapa forsendur fyrir stórum afnámsskrefum. Í dag finnur fólk fyrir nokkrum hindrunum og þarf til dæmis að fara með farseðil í banka til að kaupa gjaldeyri. Fólk sem flytur búferlaflutningum hefur lent í margvíslegum vanda en sú girðing sem hefur verið utan um gjaldeyrismálin er að færast mun utar. Það er erfitt að meta tjónið sem höftin valda. Það sér enginn fyrirtæki sem ekki verða til, tækifæri sem ekki er unnt að nýta og þann óbeina kostnað sem höft til lengri tíma valda.“

Hvenær get ég þá farið út í banka án þess að þurfa að hafa með farseðil?

„Vonandi sem fyrst,“ svara þeir, einum rómi.

Benedikt og Sigurður eru í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .