Ragnheiður Elín Árnadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, hyggst leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, einkahlutafélög og ársreikninga á haustþingi. „Tilefni breytinganna er að stærstum hluta til að einfalda lögin sem kemur til vegna þess að ríkisskattstjóri er að rafvæða fyrirtækjaskrána,“ segir Ragnheiður Elín. Í samskonar frumvarpi sem var lagt fram á seinasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu kemur fram að breytingarnar muni gera „einstaklingum og lögaðilum kleift að útbúa rafræn stofngögn vegna stofnunar hlutafélaga og einkahlutafélaga, undirrita rafrænt og senda til hlutafélagaskrár á einfaldan og öruggan hátt“.

Ragnheiður Elín vonast til þess að breytingarnar hafi það í för með sé að hægt verði að skila öllum upplýsingum og stofngögnum um nýtt hlutafélag til fyrirtækjaskrár með rafrænum hætti, þess vegna úr stofunni heiman frá. Stofnendur og aðrir geti nýtt sér rafrænar undirskriftir og að ferlið verði einfalt, gagnsætt og öruggt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .