Ég held að við getum ekki kallað það sem gerðist hér fyrir hrun kapítalisma. Það felst í orðinu, að þú leggur fram kapítal, eigið fé. En það var varla gert hér,“ segir Guðrún Johnsen, lektor í fjármálum við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Guðrún hefur skrifað bók sem heitir Bringing Down the Banking Systems: Lessons From Iceland , sem væntanleg er á næstu dögum.

Í bókinni segir Guðrún sögu af húsgagnaframleiðandanum Pétri Snæland sem hún segir lýsandi fyrir breytta viðskiptahætti hér á landi á árum áður og þá sem tíðkuðust á árunum fyrir hrun.

Pétur lenti tvisvar í hremmingum í rekstrinum. Í seinna skiptið varð fyrirtæki hans gjaldþrota - og Pétur líka. Hann hafði tekið áhættu og tapaði sínu. Pétur huggaði konu sína með þeim orðum að enginn hefði tapað á gjaldþrotinu nema þau. Það segir Guðrún vera dæmi um kapítalisma. Öðru máli hafi gegnt fyrir hrun enda fólk fært áhættuna á herðar öðrum.

„Þar voru byggðir upp vefir fyrirtækja sem fengu lánað gegn litlum eða haldlitlum veðum og með svo lítið eigið fé að það mældist varla,“ segir hún og tekur Stím-málið sem dæmi en þar lánaði Glitnir félagi meira en 20 milljarða króna til kaupa á hlutabréfum bankans. Þetta var síður en svo einsdæmi. „Áhættan var öll á bankanum og kröfuhöfum - og í tilviki kerfismikilvægra banka er þetta áhætta á skattborgara og almenning,“ segir hún. Í lok bókar leggur Guðrún til hvaða orð megi nota um viðskiptahættina hér sem ollu hruninu. Orðið er impunitism , sem dregið er að latneska orðinu impunitus . Það á við um einstakling sem er refsilaus, taumlaus, laus allra mála og öruggur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð .