Talið er að uppsafnaður húsnæðisvandi eftir botnfrystingu markaðarins árin eftir hrun geti verið allt að 20 þúsund íbúðir. Ítarleg viðhorfskönnun staðfestir hve vandinn er mikill, en stjórnvöld stefna að því að færa húsnæðiskostnað niður í 20-25% af ráðstöfunartekjum leigjenda með því að auka stuðning við þá svo hann verði til jafns við stuðning við kaupendur.

Viðhorfskönnunin sýnir að nú sé þetta hlutfall að meðaltali 42%, en ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til að koma til móts við vandann með byggingu 2.300 íbúða fyrir tekjulægsta hópinn.

Vandinn sést svart á hvítu

Á fundi á miðvikudagsmorgun fór Eygló Harðardóttir velferðarráðherra yfir viðhorfskönnun sem gerð var meðal leigjenda og húseigenda ásamt því að kynnt voru tvö frumvörp stjórnvalda til að leysa húsnæðisvandann. Viðhorfskönnunin var gerð meðal 786 leigjenda og 2.266 eigenda með 263 spurningum.

Hún leiddi í ljós hve vandinn hefur vaxið síðan 2005, en nú þurfa leigjendur að eyða umtalsvert meira af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði heldur en húseigendur. Leigjendur vitna um að á tímabilinu 2005 til 2012 hafi orðið mun erfiðara að finna húsnæði sem er í samræmi við það að á tímabilinu fór hlutfall einstaklinga á leigumarkaði úr 13% í 23%.

Í upphafi tímabilsins hafi 34,4% sagt mjög auðvelt að verða sér úti um húsnæði en það var komið niður í 7,3% árið 2015. Könnunin sýnir jafnframt að 61,7% leigjenda myndu kjósa sér að eignast eigin húsnæði ef ekki væri fyrir bágar fjárhagsaðstæður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .