Íslenska þjóðarbúið hefur sjaldan eða aldrei litið jafn vel út og nú. Heimili og fyrirtæki eru um þessar mundir að upplifa eitt lengsta, samfellda hagvaxtarskeið Íslandssögunnar. Hagvöxturinn er ekki knúinn áfram af erlendri skuldsetningu og viðskiptahalla við útlönd líkt og í síðustu uppsveiflu. Þvert á móti er hann drifinn af verulegum viðskiptaafgangi, jákvæðri erlendri stöðu og auknum kaupmætti. Þá hefur verðbólga haldist lág og stöðug í sögulega langan tíma og atvinnuleysi er nánast ekkert. Hvað gæti farið úrskeiðis?

Íslendingar eiga langa sögu af því að hækka laun umfram getu hagkerfisins og langt umfram laun ná­grannaþjóðanna. Í gegnum tíðina hafa slíkar launahækkanir venjulega brunnið upp í verðbólgu. Síð­astliðin ár hafa launahækkanir orðið viðskila við framleiðniaukningu á ný. Með litla og sjálfstæða mynt hafa Íslendingar iðulega endurheimt samkeppnishæfni sína með gengisfalli, handstýrðu eða á frjálsum markaði, með tilheyrandi skakkaföllum í efnahagslífinu. Með launaskriði í kjölfar kjarasamninga í vetur gæti sá gamli draugur látið á sér kræla og teflt góðri stöðu í tvísýnu.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í kynningu Samtaka atvinnulífsins (SA), sem hafa lagt upp í hringferð í kringum landið til að kynna stöðuna og horfurnar á vinnumarkaði á opnum fundum. Fundaröðin stendur yfir í september og október. Samtökin telja brýnt að nýtt vinnumarkaðslíkan verði tekið upp að norrænni fyrirmynd sem miðar að því að laun hækki í samræmi við framleiðslugetu hagkerfisins. Annars muni Ísland glíma áfram við sömu sjálfskaparvítin og gjalda fyrir það með efnahagslegum óstöðugleika, aukinni verð­ bólgu, hærra vaxtastigi, þverrandi samkeppnistöðu og óstöðugra gengi krónunnar.

Glópalánið getur ekki endurtekið sig

Laun á Íslandi hafa hækkað verulega á síðustu árum, langt umfram laun í nágrannaríkjum og framleiðniaukningu. Sé litið á tímabilið frá 2010 og fram að fyrsta ársfjórðungi þessa árs hafa raunlaun – kaupmáttur launa – hækkað um 27% en framleiðni hefur aðeins aukist um 7%. Þá hefur launakostnaður á hverja framleidda einingu aukist um 12% undanfarin tvö ár á Íslandi, borið saman við 3,3% með­ al OECD ríkja og 1,9% meðal ríkja Evrópusambandsins.

Þó að landsmenn séu vel kunnugir verðbólguskotum og stórum gengisfellingum frá fyrri tíð í kjölfar launaskriðs hefur kveðið við annan tón frá síðustu kjarasamningalotu árið 2015. Þrátt fyrir miklar launahækkanir hefur verðbólga ekki látið á sér kræla, þvert á spár greiningaraðila og Seðlabankans. Þess í stað hefur hún verið lítil og stöðug á samningstímanum, og kjölfesta verðbólguvæntinga styrkst við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Hvað varð eiginlega um hin gamalkunnu tengsl launa og verðlags? Af hverju veltu íslensk fyrirtæki ekki gríðarlega mikilli aukningu í launakostnaði með því að hækka verðlag?

„Ástæður þess að kostnaður sem kjarasamningarnir lögðu á launagreiðendur hefur ekki skilað sér í aukinni verðbólgu á meira skylt við heppni en nokkuð annað,“ segir í kynningu Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Vísar hann þar til þess að ytri þættir á borð við styrkingu krónunnar, bætt við­ skiptakjör, áframhaldandi veldisvöxt á komu ferðamanna til landsins og afnám tolla og vörugjalda hafi haldið aftur af verðbólgu.

En það svigrúm er uppurið, að sögn Halldórs. Ef endurtaka eigi leikinn í næstu lotu er verið að treysta á heppni – jákvæða þróun ytri þátta sem Íslendingar hafa litla stjórn á – þar sem efnahagslegur stöðugleiki er lagður að veði. Viðvarandi gengisstyrking og hagstæð þróun viðskiptakjara er nær ómöguleg þróun með tilliti til raungengis, sem er í hápunkti og á svipuðum slóðum og árið 2007.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .