David Friedman hefur, líkt og faðir hans Nóbelsverðlaunahafinn Milton Friedman, lengi verið ötull baráttumaður fyrir frelsi einstaklinganna og er hann sagður jafnvel róttækari en faðir hans. David var gestur á ráðstefnu Frjálslyndra stúdenta í HR um helgina en hann er mikill áhugamaður um íslenska þjóðveldið. David, sem jafnframt hélt í heimsókn sinni fyrirlestur í Háskóla Íslands um lög þjóðveldistímans, segir það vera dæmi um stjórnarfar án ríkisvalds sem hafi gengið upp.

„Þó að það sé alls ekki eina ástæðan, þá er stór hluti af áhuga mínum á Íslandi sá að fyrir um 40 árum skrifaði ég bókina Gangverk frelsisins (e. The Machinery of Freedom). Þar hafði ég áhuga á þeirri spurningu hve langt væri hægt að fara með rökin fyrir frelsi markaðarins,“ segir Friedman sem segist ekki hafa vitað mikið um íslenska þjóðveldið þá.

„Ég vildi finna út hvort kerfi með einkaeign og frjálsri verslun og allt það sem hagkerfið byggir á, en án ríkisvalds, væri vænlegt. Niðurstaða mín í dag er að ég var að finna hjólið upp á nýtt, því það sem ég var að lýsa er nútímaleg útgáfa af blóðhefndarkerfinu sem verið hefur við lýði víða í gegnum söguna, sem er það sem ég hef núna mestan áhuga á.“

Starfaði sem prófessor í greinum sem lærði aldrei

Friedman er í dag hættur að kenna en hann hefur síðustu ár starfað sem lagaprófessor við Santa Clara háskólann í Chicago. Einnig hefur hann starfað sem hagfræðiprófessor, þrátt fyrir að hafa aldrei tekið námskeið í skóla í hagfræði eða lögfræði. Hann kláraði hins vegar meistara- og doktorspróf í eðlisfræði frá Há- skólanum í Chicago. Nú vinnur hann að þremur bókum, ein er framhald af vísindaskáldagnabókaflokki sem hann hefur gefið út, ein er safn ljóða og smásagna þar sem áhugaverðar pælingar um hagkerfi koma við sögu þar með talið ljóð Rudyard Kipling, Friður Divesar (e. The Peace Of Dives) en ein er um lagakerfi þjóðveldistímans og svipuð lagakerfi, byggð á blóðhefnd, víða um heim.

„Vinnuheitið er Lagakerfi mjög ólík okkar (e. Legal systems very different from ours),“ segir Friedman, en uppkast hennar má finna á heimasíðu hans.

„Blóðhefndarlög er reyndar misvísandi heiti, því ef þau virka leiða þau ekki til átaka, þó að til þess komi stundum. Slík lög byggja á valdreifingu löggæslunnar, sem átti sér stað hér á landi á söguöld, en einnig í öðrum samfélögum. Grunnatriðið við slíkra lagabálka er að ef þú hefur gert eitthvað á minn hlut, þá hóta ég að valda þér skaða, svo spurningin er til þess að slík kerfi geti gengið upp, hvaða skilyrði þurfa þau að uppfylla.“

Friedman var spurður hvaða þýðingu það hafi fyrir nútímasamfélag að skoða þessi lög.

„Með því að skoða þessi lagakerfi gefur það okkur skilning á bæði því sem er að gerast í okkar eigin kerfi, eða hvernig mætti bæta úr þeim. Eitt af því sem ég ræði um í bók minni er að í íslenska kerfinu á þjóðveldisöld var hægt að framselja skaðabótakröfur, sem mér finnst skemmtilegt að lýsa þannig að bandarísk löggjöf sé einungis um þúsund árum á eftir því sem framsæknast gerðist í lagalegri tækni. Við gætum alveg tekið upp þá reglu,“ segir Friedman.

„Nú er það orðið ljóst að flest núgildandi lagakerfi eru byggð á grunni blóðhefndarkerfa.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .