Vaxandi eftirspurn hefur verið eftir eftirliti með nýtingu auðlindarinnar, bæði veiðum og vigtun afla, eftir því sem vottunarkröfur hvers konar verða mikilvægari í sjávarútvegi. Fiskistofa fær stöðugt fleiri beiðnir um að staðfesta að nýting auðlindarinnar sé sjálfbær og ábyrg, að hér sé ekki verið að ofnýta stofnana og farið sé að öllum lögum og reglum.

„Þarna fara náttúrlega saman hagsmunir stjórnvalda og greinarinnar, og í rauninni þjóðarinnar allrar,“ segir Eyþór Björnsson Fiskistofustjóri. Hann segir óhjákvæmilegt að eftirlitsstarfið lagi sig stundum að brýnum viðfangsefnum hverju sinni, og nefnir sem dæmi grásleppuveiðar hér við land, sem misstu MSC-vottun á síðsta ári.

„Það hefur orðið til þess að við þurftum að setja gríðarlega mikinn kraft í eftirlit með grásleppubátum, bæði í fyrra og aftur núna. Við vorum ekki með áætlun um að fylgja því jafn stíft eftir núna í ár af því það eru önnur aðkallandi eftirlitsverkefni, sem sitja þá á hakanum á meðan. En það kom sú krafa að við myndum gera þetta af meiri þunga núna en í fyrra. Þess vegna vorum við með meirihluta alls eftirlitsafls á grásleppunni núna á vertiðinni til þess að geta svarað þessari eftirspurn.“

Á meðan hefur eftirlit Fiskistofu með brottkasti, vigtun, skráningu og önnur mikilvæg eftirlitsverkefni að nokkru leyti setið á hakanum.

„Þarna þurftum við að setja meginþunga eftirlitsins á þennan litla hluta flotans og vinna með stjórnvöldum og hagsmunaaðilum í því að reyna að endurvinna traust á þessu veiðum, og það snýst aðallega um að geta sýnt fram á að fuglar og spendýr séu réttilega skráð í afladagbækur og að meðaflinn sé innan ákveðinna marka.“

Eftirlit eða rannsóknarstarf?
Eyþór segir að Fiskistofa hafi almennt enga burði til þess að vera með handahófseftirlit. Mannaflinn dugi hreinlega ekki til og áhættumiðað eftirlit er markvissara.

„Þess vegna erum við með áhættumiðað eftirlit og beinum því þangað sem áhættuþættirnir eru. Það leiddi hugsanlega til þess að þegar unnið var úr gögnunum var ekki tekið tillit til þess.“

Þegar MSC-vottunin var tekin af grásleppunni gagnrýndu smábátasjómenn forsendur þeirrar ákvörðunar, einkum að tölur um meðafla skyldu uppreiknaðar fyrir landið allt eins og þau svæði, sem fylgst var með, væru dæmigerð fyrir veiðarnar um allt land.

„Þeir bentu á að eftirlitið hafi verið mest á svæðum þar sem hvort eð er mátti búast við að mest kæmi af sjávarspendýrum í netin, en ekki annars staðar við landið. Krafan til okkar var að vera með handahófseftirlit núna til þess að fá ákveðna dreifingu á mælingarnar, þannig að eftirlitið yrði samanburðarhæft.“

Eyþór segir þarna reyndar vakna spurningar um það hvort þetta sé eftirlit eða rannsóknarstarfsemi.

„Er þetta gagnaöflun til að undirbyggja eitthvað allt annað en að fyrirbyggja brot og framfylgja lögum um stjórn fiskveiða? Þetta vekur upp spurningar hvort það sé lögbundið hlutverk Fiskistofu að vera í svona gagnaöflun,“ segir hann.

„En svona er bara staðan í dag og það er óneitanlega mjög áhugavert hvað þessi litli hluti íslensks sjávarútvegs gleypti stóran hluta af eftirlitinu til þess akkúrat að reyna að styðja við vottun og markaðsmál íslenskra sjávarafurða.“

Ábyrgðin þeirra sem veiða
Síðastliðið haust varð Fiskistofa fyrir harðri gagnrýni fyrir að hafa ekki fylgst nægilega vel með brottkasti á Íslandsmiðum. Eyþór segir vinnubrögð Fiskistofu ekki hafa breyst neitt síðan þá hvað eftirlit með brottkasti varðar.

„Nei, í rauninni ekki. Við höfum bara jafn mikinn mannafla og við höfðum þá, og beitum sömu aðferðum, sem er að reyna að greina breytileika í aflasamsetningu. Við náum aldrei að fyrirbyggja brottkast alveg nema við séum með tvo eftirlitsmenn um borð í hverju skipi þannig að við náum að vakta allan sólarhringinn, og það er auðvitað bara galið. Við förum aldrei þangað.“

Hann segist samt vona að þessi umfjöllun í haust hafi vakið þá til umhugsunar sem eru að nýta auðlindina,

„Það eru þeir sem bera ábyrgð á því að ganga almennilega um. Þetta styrkti okkur ekkert í sjálfu sér annað en bara að segja okkur það sem við vissum. Sem er að við náum ekki utan um þetta, að við getum ekki sýnt fram á þetta. Fyrst og síðast snýst þetta um að þeir sem eru að gera út sýni ábyrgð og hagi sér með ábyrgum hætti.“

Dregist saman frá hruni
Eyþór segir mikið skorta upp á að eftirlit Fiskistofu sé nægjanlegt. Starfsmannafjöldi í eftirliti hefur dregist verulega saman frá hruni, rétt eins og í öðrum verkefnum stofnunarinnar.

„Við þyrftum að geta verið með talsvert meira eftirlit, en þetta er það sem við höfum úr að spila og við nýtum það sem best. Við þyrftum að geta verið meira á vettvangi, en ‚i staðinn erum við að reyna að nýta okkur tæknina. Við erum með greiningadeild sem er í áhættumati og þá er verið að reyna að finna áhættupunktana, hvar líkur eru á brottkasti eða hvort einhvers staðar sé ósamræmi í aflasamsetningu skipa sem eru að veiða á svipuðum stað með sambærileg veiðarfæri.“

Hann segir greiningartæknina líka notaða í vigtunareftirliti Fiskistofu.

„Þar erum við að fylgjast með íshlutfalli og höfum verið að styrkja það með því að birta það á vefnum.“

Hann segist sannfærður um að birtingin veiti mönnum aðhald, veki menn til umhugsunar um að þeir verði að vanda sig. Allt ósamræmi veki spurningar.

„Við höfum fylgt slíkum frávikum eftir. Ef þau hafa verið veruleg þá höfum við sent eftirlitið á staðinn, jafnvel í nokkra daga samfleytt og þá höfum við séð að það kemst á ákveðið jafnvægi. Það tekur kannski nokkra daga að sjá að menn eru komnir á einhvern stað. Sumir halda sér þar, en svo fer stundum aftur breytileiki í gang.“

Hann segir þó nauðsynlegt að halda því til haga að stundum geta verið góðar og gildar skýringar á því að íshlutfall sé frábrugðið þegar eftirlit er haft með vigtun.

„Kannski komum við bara inn á einhverjum óheppilegum tíma þegar eitthvað sérstakt var í gangi.“

Tæknin byltir eftirlitinu
Tækniþróun í sjávarútvegi hefur verið hröð og sömu sögu er að segja af búnaði sem nýst getur til eftirlits. Þar sér Eyþór mörg tækifæri í alls ekki í svo fjarlægri framtíð

„Núna er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til dæmis búinn að boða það að við fáum heimild til að nýta myndavélar við eftirlit, og það eru tækifæri i því. Við höfum líka verið að ræða við Hafnasambandið um samstarfsverkefni með löndunarhöfnum. Þær eru margar hverjar vel búnar myndavélum og við gætum fengið að samnýta það með þeim. Hugsanlega myndum við einhvers staðar fara í samstarf með höfnum um að bæta við myndavélum eða setja upp myndavélar þar sem ekkert er.“

Einnig hafa verið skoðaðir möguleikar við að nota dróna í eftirlitið, bæði í höfnum og líka úti á sjó.

„Það eru mjög spennandi vangaveltur um það,“ segir Eyþór. „Síðan fleygir tækninni áfram inni í húsunum með myndgreiningu og tegundagreiningu á fiskum með þrívíddarmyndavélum. Það er jafnvel hægt að rúmmálsmæla fisk með þrívíddarmyndgreiningu, og ef þú veist rúmmálið þá veistu nú sirka þungann. Þannig að það eru svo mörg tækifæri þarna í framtíðinni sem hugsanlega verður hægt að nýta, til dæmis bara við vigtun, og þess vegna úti á sjó ef þessi tækni væri komin þangað.“

Mælaborð sjávarútvegsins
Fiskistofa heldur úti vef sem hefur að geyma mikið magn af upplýsingum um íslenskan sjávarútveg, þar sem daglega er meðal annars hægt að sjá nýjustu stöðu aflaheimilda og landana. Vefurinn er í stöðugri þróun og þar verður ekkert lát á, að sögn Eyþórs.

„Við höfum verið að gjóa á augunum á hluti eins og mælaborð ferðaþjónustunnar sem birtir gríðarmikið magn af upplýsingum á mjög aðgengilegan hátt. Við höfum mikinn áhuga á að birta upplýsingar um sjávarútveg með slíkum hætti, og erum vonandi mjög fljótlega að fara að stíga fyrstu skrefin með það að birta eins konar mælaborð sjávarútvegsins.“

Þar geti fólk kallað fram til dæmis gröf og línurit og leikið sér aðeins með upplýsingarnar.

„Þangað viljum við fara, vegna þess að þetta er sameign þjóðarinnar. Við þurfum að segja frá því hvernig hún er nýtt og þannig að allir sem áhuga hafa geti skoðað það. Vonandi sjáum við fyrstu merki þess áður en þetta ár er á enda. Þessi tækni er öll til staðar.“

App fyrir smábáta
Nú þegar er langt komið í vinnslu app fyrir smábátasjómenn sem á að koma í staðinn fyrir afladagbækur á pappírsformi. Þetta dagbókarapp er komið í prófun um borð í nokkrum smábátum og komnar eru nokkrar ábendingar um ýmislegt sem betur mætti fara.

„Við erum að vinna úr þeim. Við erum svolítið á eftir þeirri tímaáætlun sem við settum upp, en þetta er mjög áhugavert verkefni. Bátarnir munu þá geta skilað okkur upplýsingum í rauntíma um það sem þeir eru að veiða. Þetta hlýtur að vera framtíðin.

Þetta app er að sögn Eyþórs unnið með íslensku hugbúnaðarfyrirtæki, en hugmyndavinnan er unnin af bæði Fiskistofu og Hafrannsóknastofnun.

„Í rauninni er hugmyndavinnan líka unnin af aðilum í greininni, því við höfum fengið innlegg frá aðilum sem vel þekkja til. Við erum líka að hugsa um notandann úti á sjó, að hann hafi beinlínis hag af þessu, geti til dæmis séð sína sögu og náð í kannski einhverjar litlar skýrslur sem hann getur skoðað í sínum snjalltækjum.“

Flutningurinn reyndist erfiður
Eyþór segir flutninga höfuðstöðva Fiskistofu frá höfuðborgarsvæðinu til Akureyrar hafa reynt verulega á stofnunina.

„Það eru í rauninni að verða fjögur ár síðan ráðherra kynnti að hann ætlaði að flytja stofnunina, það var í júní 2014. Svo var langur óvissutími, meðan við vorum að bíða eftir að það fengist lagaheimild og ráðherra tæki formlega ákvörðun. Þetta var limbó í þrettán mánuði. Á meðan var fólk að leita sér að störfum því það var óvissa um framtíðina og þá hætti talsverður fjöldi af fólki hjá okkur.“

Hann segir það rót sem kom á stofnunina við flutninginn að mestu búið að jafna sig

„Auðvitað er eftirsjá að góðu fólki sem hætti, en við höfum líka fengið mjög gott fólk inn i staðinn. Það hefur verið mikil áskorun að tapa ekki út þekkingu, og svo sannarlega hefur tapast hér þekking, en við byggjum bara nýja þekkingu í staðinn. Það er verkefnið núna. Miðað við aðstæður gekk þetta allt samt ótrúlega vel, að hvergi skyldi verða neitt tjón af þessu. En þetta slapp til.“

Eyþór segir afar ánægjulegt að nú síðustu árin hafi Fiskistofa mælst ofarlega í árlegri mælingu á stofnun ársins.

„Við höfum verið að skrapa botninn í mörg ár og fórum svo upp í 14 sæti á síðasta ári og svo i 7 sæti núna, sem er augljóst merki þess að við erum að gera býsna vel og búni að ná okkur mjög vel á strik. Það er góð stemmning á Fiskistofu. Eftir allt sem á undan er gengið skiptir það okkur miklu máli.“