Seðlabanki Íslands gaf í dag út ritið Fjármálastöðugleika . Í kafla um helstu áhættuþætti sem steðja að íslensku efnahagslífi er bent á að þó að gott sé að bankarnir hafi greiðan aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum og að kjör á fjármögnun hafi batnað, að mati Seðlabankans, opni það á þann möguleika að innlendir aðilar sem eru óvarðir fyrir gjaldmiðlaáhættu taki lán í erlendum gjaldmiðlum að því er kemur fram í ritinu.

Verði slík lán veitt í verulegum mæli getur það grafið undan stöðugleika fjármálakerfisins að mati skýrsluhöfunda.

Vilja ekki leyfa sögunni að endurtaka sig

Í ritinu er bent á að hagstæð erlend lánsfjármögnun hafi átt stóran þátt í þeirri útlánaþenslu sem varð á Íslandi á árunum fyrir fjármálaáfallið 2008, en þá jukust lán í erlendum gjaldmiðlum og gengistryggð lán til innlendra aðila umtalsvert.

Gengislækkun íslensku krónunnar árið 2008 hafði síðan gífurlega neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu óvarinna innlendra aðila með lán tengd gengi eða í erlendum gjaldmiðlum.

Seðlabankinn bendir á að í dag séu þó útlánareglur bankanna mun stífari en fyrir fjármálaáfallið og bankarnir veita nánast aðeins lán í erlendum gjaldmiðlum til þeirra sem eru með erlendar tekjur eða eignum. Hlutur útlána innlánsstofnana í erlendum gjaldmiðlum af heildarútlánum hefur minnkað, en hlutfallið var 31% í lok árs 2014 en var komið niður í 27% síðustu áramót.

Áhættusækni gæti aukist

Að mati SÍ gæti greiðari aðgangur íslensku bankanna að erlendu lánsfé og batnandi kjör leitt til þess að lánastofnanir freistist til að stækka efnahagsreikning sinn og að innlendir aðilar sem óvarðir eru fyrir gjaldmiðlaáhættu sæki í lægri vexti.

Við það gæti áhættusækni aukist. „[..] verði slík lán veitt í ríkum mæli getur það grafið undan stöðugleika fjármálakerfisins,“ segir í Fjármálastöðugleika.

Þriðja tilraun til stjórnarfrumvarps

„Til að koma í veg fyrir þessa áhættu hefur í tvígang verið lagt fram stjórnarfrumvarp á Alþingi þar sem markmiðið var m.a. að veita Seðlabankanum heimild til að takmarka lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum til innlendra aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldmiðlaáhættu,“ segir í Fjármálastöðugleika.

Seðlabankinn kallar þetta „þjóðhagsvarúðartæki“ og segir mikilvægt að hægt sé að beita því verði þörf þegar búið er að afnema fjármagnshöftin. Lagafrumvörpin tvö sem áður voru lögð fram voru hins vegar ekki samþykkt.

Sams konar frumvarp hefur nú verið lagt fram í þriðja sinn, nú af Benedikt Jóhannessyni, fjármála- og efnahagsráðherra. „Mikilvægt er að frumvarpið verði að lögum og að útfærsla heimildarákvæða, er varða takmörkun lánveitinga í erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldmiðlaáhættu, sé þannig að hægt sé að grípa til þeirra fljótt og án vandkvæða,“ segir að lokum í kaflanum í Fjármálastöðugleika er varðar áhættuna sem skapast af lánum í erlendum gjaldmiðlum til óvarinna aðila.