Heimastjórnarsvæðið Gíbraltar vonast eftir því að úrgönguviðræður Bretlands og Evrópusambandsins tryggi svæðinu áframhaldandi aðgengi að sameiginlegum markaði sambandsins sem og að áfram geti þúsundir starfsmanna sem vinni í héraðinu farið frjálsir milli þess og heimkynna sinna á Spáni.

Aðalráðherra Gíbraltar, Fabian Picardo, reynir að tryggja að fjármálaþjónusta héraðsins verði ekki fyrir skaða í kjölfar úrsagnarinnar.

Vilja áframhaldandi aðgang og frjálst flæði vinnuafls

„Gíbraltar vill hafa aðgang að sameiginlega markaðnum og við viljum áframhaldandi frjálst flæði vinnuafls,“ sagði Picardo í viðtali á landsfundi breska Verkamannaflokksins.

Ummæli Picardo sýna fram á hve flókið verkefni Theresa May forsætisráðherra stendur frammi fyrir, því hún þarf að koma landinu út úr sambandinu á sama tíma og hún takmarki mögulegan efnahagsskaða af því ásamt því að verða við kröfum kjósenda sem vilja draga úr innflutningi fólks til landsins og tryggja að bresk lög gildi í Bretlandi.

Ekki hluti tollabandalagsins

Íbúar Gíbraltar kusu með áframhaldandi aðild að ESB með miklum meirihluta, en héraðið er með ákveðna sjálfstjórn gegn Bretlandi, svo aðild þess að sambandinu er nú þegar með ákveðnum sérreglum. Héraðið er til að mynda ekki hluti af tollabandalagi sambandsins, sem leyfir frjálsa flutninga á vörum án tolla innan sambandsins, samkvæmt Picardo.

Þetta breska hérað með 33 þúsund íbúa á syðsta odda Spánar hefur löngum verið bitbein spænskra stjórnvalda, en forsætisráðherra landsins hefur nú þegar sagt að hann stefni að því að ná sameiginlegum yfirráðum yfir héraðinu í kjölfar úrsagnarinnar.

Aldrei þýðir aldrei, breskt þýðir breskt

„Hann mun ekki ná neinum yfirráðum yfir Gíbraltar. Ef Brexit þýðir Brexit, breskt þýðir breskt, aldrei þýðir aldrei, og Gíbraltar verður breskt um eilífð: það væri best fyrir hann að venjast því,“ sagði Picardo. „Aðstæður leyfa okkur að ná góðum samningi, í gegnum og með Bretlandi, við hin 27 aðildarríkin, svo lengi sem Spánn þykist ekki spila einhverja leiki.“

Langmestu viðskipti tryggingafélaga og veðbanka héraðsins eru við Bretland, sem verður að hans sögn að vera áfram alveg opið en á sama tíma vill hann að héraðið haldi áfram aðgangi að sameiginlegum markaði sambandsins.