Síðasta sumar veitti tímaritið Business Destination Reykjavíkurborg verðlaun. Verðlaunin voru ekki af verri endanum, enda var borgin útnefnd besti ráðstefnu- og fundarstaður Evrópu. Íslendingar hafa áður hlotið verðlaun frá umræddu tímariti. Árið 2015 fékk fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli verðlaun og árið 2016 var Harpa útnefnd sem besta ráðstefnumiðstöð Evrópu. Vinsældir Íslands hafa því ekki einskorðast við ferðamenn, heldur hafa ráðstefnugestir einnig sýnt landinu mikinn áhuga.

Gjarnan eru þeir ferðamenn sem koma til landsins til þess að taka þátt í ráðstefnum, fundum, hvataferðum eða viðburðum nefndir MICE-ferðamenn. Fyrirtækið Meet in Reykjavík hefur sérhæft sig í því að laða slíka ferðamenn að landinu, en jafnframt hefur félagið haldið utan um gögn sem gefa nánari innsýn inn í þennan markað.

Að Meet in Reykjavík standa 44 fyrirtæki sem starfa innan ráðstefnu-, funda-, hvataferða eða viðburðamarkaða eða sjá hag sinn í styrkingu þessa markaðshluta ferðaþjónustunnar. Kjölfestufjárfestar eru Reykjavíkurborg og Icelandair Group.

Mikill vöxtur

Undanfarin ár hefur félaginu gengið vel að fjölga MICE-ferðamönnum. Hlutfall þeirra hefur þó farið minnkandi í miklum vexti ferðaþjónustunnar undanfarin ár, þrátt fyrir að fjöldi MICE-ferðamanna hafi aukist um 15,1% að meðaltali á árunum 2011-2016. Vöxtur á heimsvísu í þessum flokki hefur á sama tímabili verið 4,2%.

Þegar Meet in Reykjavík var stofnað árið 2011 var markmiðið að hlutfall MICE-ferðamanna yrði 11% árið 2020 en í dag er það að sögn félagsins um 6%. Í þeim samanburðarlöndum sem mestum árangri hafa náð í að auka verðmætasköpun í ferðaþjónustu er þetta hlutfall 15-20%.

Ímynd og öryggi

Eitt af því sem hefur skapað Íslandi sérstöðu er ímynd og öryggi. Það eru því svipaðir þættir að draga MICE-ferðamenn að landinu og aðra ferðamenn. Ísland er talið spennandi, umhverfisvænt og þökk sé fjölgun flugferða hefur aðgengið batnað gífurlega. Auk þess ber að nefna hversu stutt er í náttúruperlur frá höfuðborgarsvæðinu.

Meet in Reykjavík telur landið einnig njóta ákveðinnar sérstöðu, þar sem hér er að finna framúrskarandi ráðstefnuaðstöðu og fjölbreytta gistimöguleika. Reykjavík hefur jafnframt komið vel út á Global Destination Sustainability Index, sem mælir sjálfbærni meðal mikilvægra áfangastaða til ráðstefnu- og fundarhalds. Árið 2017 voru 38 borgir mældar og deilir Reykjavík þriðja sæti listans með Kaupmannahöfn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .