Bretland er einn mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslendinga. 12% af heildarútflutningi Íslands fer á breskan markað. Því hlýtur það að teljast til tíðinda þegar svo stórt ríki hyggst breyta samskiptum sínum við Evrópusambandið. Ísland flýtur með þegar þessir tveir risar semja um framtíð Evrópu og samskipti ríkja innan álfunnar — þar með talið um framtíð Íslands. Íslenskt atvinnulíf fer svo sannarlega ekki varhuga af þessum miklu hræringum og því hafa Samtök atvinnulífsins (SA) gert greiningu á Brexit út frá íslenskum hagsmunum. Óvissa er einn mesti óvinur atvinnulífsins, því er nauðsynlegt, bæði fyrir stjórnvöld og hagsmunaaðila, að taka höndum saman og reyna að tryggja það að íslenskir hagsmunir verða ofan á í þessum ólgusjó. Bergþóra Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá SA, segir að greining samtakanna sé gerð til þess að fyrirtæki geti horft yfir sinn rekstur og áttað sig á því hvaða hugsanlegu áhrif Brexit geti haft.

Fjórar sviðsmyndir: 50 ár aftur í tímann?

Í greiningu SA eru teiknaðar upp fjórar sviðsmyndir. Eins og sakir standa hefur Ísland aðgang að innri markaði ESB og þar af leiðandi Bretlandsmarkaði í gegnum EES-samninginn. Aðgangur Íslands að Bretlandsmarkaði eftir útgöngu Bretlands úr ESB mun ráðast af niðurstöðu samningaviðræðna ESB og Breta og því þarf mögulega að semja upp á nýtt til að tryggja aðgang að markaðnum.

Í fyrstu sviðsmynd SA er gert ráð fyrir því að samningur Bretlands við ESB nái einnig til EESsvæðisins. Í annarri sviðsmyndinni semur Bretland sérstaklega við EFTA – og þar af leiðandi við Ísland. Í þriðju sviðsmyndinni gerir Bretland tvíhliða samning við Ísland og fjórða sviðsmyndin er sú að engin samningur náist.

Bergþóra hjá SA segir að tilgangurinn með því að setja upp sviðsmyndirnar sé að vekja fólk til umhugsunar, en á þessum tímapunkti eru of margir óvissuþættir uppi til að hægt sé að spá fyrir um hver endanleg niðurstaða verður og hvað hún mun fela í sér. „Við erum einnig að biðja aðildarfyrirtæki okkar að aðstoða okkur við að aðstoða sig, að koma til okkar upplýsingum um hverjir þeirra daglegu hagsmunir eru svo við getum betur kortlagt forgangsmál atvinnulífsins. Viðskiptasamband Bretlands og Íslands hefur þróast á vettvangi Evrópusamstarfs síð- an Ísland gekk í EFTA árið 1970. Ef slitið verður á tengslin á milli Bretlands og ESB þá eru flestir tvíhliða samningar við Bretland orðnir meira en hálfrar aldar gamlir. Við erum til að mynda með loftferðasamning frá 1972 sem gerir ráð fyrir einu flugi á dag, annaðhvort til Lundúna og Glasgow, en ekki tugum ferða á sólarhring til margra mismunandi áfangastaða. Það er því mjög holl æfing að máta sig við það hvaða afleiðingar það gæti haft ef skorið yrði alveg á þessi tengsl, þó að það sé ólíkleg sviðsmynd,“ segir Bergþóra.

Ef enginn samningur næst myndi almenn tollskrá WTO gilda í viðskiptum okkar við Bretland. „Þá gætu verið brostnar forsendur fyrir stórum hluta útflutnings til þessa stóra viðskiptalands okkar og einni mikilvægustu flutningaleið okkar fyrir ferskvöru. Þó það sé ólíkleg niðurstaða teljum við mikilvægt að átta sig á hversu verðmætur sá markaðsaðgangur sem Ísland nýtur víða er og að hann sé ef til vill ekki sjálfgefinn,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.