Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA Capital Management, segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að gengi krónunnar hafi verið rangt skráð vegna viðamikilla inngripa Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkaði. Þetta kemur fram í frétt á vef GAMMA .

Haft er eftir Gísla í viðtalinu að Seðlabankinn hafi verið að safna í gjaldeyrisvaraforða sinn og sé kominn með gríðarlegan forða sem nemur um 30% af vergri landsframleiðslu. Jafnframt hafi hann að undanförnu verið að draga úr kaupum á gjaldeyri sem leiðir til þess að krónan styrkist enn fremur.

Fimmta sætið á lista yfir ríki þar sem landsframleiðsla er á íbúa

Samkvæmt tölum GAMMA, þá vermir Ísland fimmta sætið yfir þau lönd sem landsframleiðsla er á íbúa, mælt í bandaríkjadollurum. Það þýðir að það sé gjörbreyting á stöðu landsins á fáaum árum. 2009 hafi ísland verið í fjórtánda sæti listans samkvæmt sömu tölum.

Gísli telur það það gífurlega áhugavert, sér í lagi ef litið er á hvaða lönd eru ofar okkur á listanum; Noregur, Katar, Sviss og Lúxemborg. Hann telur þau lönd ekki samanburðarhæf. „Þá er einnig hægt að nefna að í Lúxemborg og Katar vinna miklu fleiri en búa þar og það veldur því að þjóðarframleiðsla mæld á hvern íbúa verður mun hærri en ef aðeins væri litið til þess hóps sem í raun byggir landið,“ er haft eftir Gísla í viðtalinu.

Hann segir viðsnúning Íslands vera fordæmalausan og að kaupmáttur hafi ekki verið hærri síðan 2007. En nú séu skuldir heimilanna og ríkisins mun lægri.