Gísli Kr. hefur verið ráðinn verkefna- og vörustjóri skýjalausna hjá Advania en í starfinu felst umsjón með vöruþróun sem miðar að því að gera vörur og þjónustur fyrirtækisins aðgengilegar í Markaðstorgi Advania, sjálfsafgreiðslulausn sem færir viðskiptavinum betri þjónustu og yfirsýn yfir skýjaþjónustur og -áskriftir sínar að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Advania.

„Við erum mjög ánægð að hafa fengið Gísla í lið með okkur við að gera Markaðstorg Advania enn öflugra“ segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi. „Hér um að ræða framúrstefnulega lausn sem mætir kröfum viðskiptavina okkar um aukna sjálfsafgreiðslu og munu hæfileikar Gísla án nokkurs vafa nýtast vel í þessari vegferð okkar.“

Markaðstorg Advania er vettangur sem gerir kerfisstjórum og umsjónarmönnum upplýsingatæknimála kleift að afgreiða sig, á einum stað, um ólíkar skýjaþjónustur og halda utan um áskriftir starfsfólks og réttindi. Í lausninni er mikið hagræði fólgið en meðal annars fá fyrirtæki einungis einn reikning fyrir öllum áskriftum í stað margra reikninga frá ólíkum þjónustuaðilum.

„Ég er gríðarlega ánægður að vera kominn til liðs við Advania og er spenntur að takast á við þær spennandi áskoranir sem hafa verið lagðar fyrir mig” segir Gísli. “Það eru gríðarlega spennandi tímar framundan og megin áhersla okkar er að bæta þjónustuferla enn frekar og veita viðskiptavinum tól til að besta sinn UT rekstur.”

Gísli starfaði síðast sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Greenqloud en hefur einnig starfað sem upplýsingatækni- og viðskiptaþróunarráðgjafi. Hann er kvæntur Bryndísi Gyðu Michelsen, laganema, og eiga þau saman einn son en Gísli á einn son úr fyrra sambandi.