Gistinætur ferðamanna á öllum skráðum gististöðum í október síðastliðnum voru 649.300, en þær voru 586.500 í sama mánuði árið áður. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 490.900 en aðrar gistinætur s.s. í íbúðagistingu, farfuglaheimilum og tjaldsvæðum voru 158.400. Heildarfjöldi gistinátta í október jókst um 10,7% milli ára, þar af var 8% fjölgun á hótelum og gistiheimilum og 20% fjölgun á öðrum tegundum gististaða. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Ekki liggja fyrir tölur yfir gistinætur í október sem seldar eru í gegnum Airbnb og sambærilegar síður sem og tölur um fjölda ógreiddra gistinótta. Verið er að yfirfara aðferðafræði við útreikning þessara talna og verða gögn uppfærð eins fljótt og mögulegt er.

8% aukning gistinátta á hótelum í október

Gistinætur á hótelum í október síðastliðnum voru 397.900, sem er 8% aukning frá sama mánuði árið áður. Um 56% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 224.600. Fjöldi gistinátta á höfuðborgarsvæðinu dróst lítillega saman milli ára en gistinóttum fjölgaði milli ára í öllum öðrum landshlutum.

Um 91% gistinátta á hótelum voru skráðar á erlenda ferðamenn eða 360.900. Bandaríkjamenn voru með flestar gistinætur (125.700), síðan Bretar (63.300) og Þjóðverjar (22.700)en gistinætur Íslendinga voru 37.000. Verið er að yfirfara tölur um þjóðerni gesta sem gæti haft áhrif á þessar tölur en ekki er reiknað með að sú yfirferð hafi áhrif á heildarfjölda gistinátta.

Á tólf mánaða tímabili, frá nóvember 2017 til október 2018, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.458.000 sem er 5% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

Best herbergjanýting á Suðurnesjum

Herbergjanýting í október 2018 var 70,5%, sem er hækkun um 0,3 prósentustig frá október 2017 þegar hún var 70,2%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 7,7% mælt í fjölda herbergja. Herbergjanýting lækkaði frá fyrra ári á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi en hækkaði í öðrum landshlutum. Nýtingin í október var best á Suðurnesjum eða 83,0%.