Gistinóttum í september fjölgaði um 11% milli ára en gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum í september síðastliðnum voru 1.074.000, en þær voru 966.000 í sama mánuði árið áður. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 604.200, gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum, tjaldsvæðum o.þ.h. voru 291.600, og 178.000 í gegnum vefsíður á borð við Airbnb.

Heildarfjöldi gistinátta í september jókst um 11% milli ára, þar af var 11% fjölgun á hótelum og gistiheimilum, 33% fjölgun á öðrum tegundum gististaða og 11% fækkun á stöðum sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður.

Til viðbótar voru gistinætur erlendra ferðamanna 27.000 í bílum utan tjaldsvæða og 31.500 hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða á öðrum stöðum þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu.

Verið er að yfirfara aðferðir við áætlun þeirra gistinátta sem metnar eru út frá Landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands og gæti sú yfirferð haft áhrif á tölur bæði fyrir 2017 og 2018.

13% aukning gistinátta á hótelum í september

Gistinætur á hótelum í september síðastliðnum voru 434.700, sem er 13% aukning frá sama mánuði árið áður. Um 52% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 227.500.

Um 92% gistinátta á hótelum voru skráðar á erlenda ferðamenn eða 399.500. Bandaríkjamenn voru með flestar gistinætur síðan Bretar og Þjóðverjar, en gistinætur Íslendinga voru 35.100.