Heildargistinóttum erlendra ferðamanna á Íslandi fjölgaði milli ára um 27%, fóru þær úr 4,4 milljónum í 5,6 milljónir milli áranna 2014 og 2015. Er hægt að lesa þetta út af vef Hagstofunnar sem tekur saman gistinætur á öllum tegundum gististaða landsins.

Hlutfall landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins hélst nánast það sama á milli áranna, eru 47% gistináttanna á höfuðborgarsvæðinu, en næst flestar voru þær á Suðurlandi eða 18%.

Næst á eftir kemur Norðurland eystra, með 10%, síðan Austurland með 9%, Vesturland með 6%, Suðurnes með 4%, Vestfirðir með 3% og Norðurland vestra minnsta hlutfallið eða 2% gistinátta erlendra ferðamanna.