Í nýútkominni hagsjá Landsbankans kemur fram að fréttir um afbókanir og mikla fækkun á pantaðri gistingu á Vesturlandi og Vestfjörðum virðast ekki vera í takt við raunveruleikann. Bendir hagfræðideild bankans á það ef rétt reynist virðist vera um mjög nýtilkomna þróun að ræða.

Talað hefur verið um 35-40% fækkun á gestum á þessum stöðum. Á sama tíma benda tölur Hagstofunnar til þess að gistinóttum erlendra ferðamanna á heilsárshótelum hafi fjölgað alls staðar á landinu á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Bendir hagfræðideildin þó á að tölur Hagstofunnar nái einungis til fyrstu fjögurra mánaða ársins og því eðlilega ekki hægt að sjá hvort þessi þróun sé nýtilkominn eða ekki, fyrr en nýjar tölur berast. Auk þess ná tölur Hagstofunnar einungis yfir heilsárshótel og gæti þróunin í annars konar gistirými því hafa verið mun verri á síðustu mánuðum.

Í hagsjá hagfræðideildar kemur einnig fram að fjölgun gistinátta hafi verið töluvert breytileg eftir landsvæðum á fyrstu mánuðum ársins. Þannig var fjölgunin einna minnst á landsvæðum sem eru lengst frá höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir það hafi fjölgunin verið mest á Vesturlandi og Vestfjörðum eða tæp 31%. Á sama tíma nam fjölgunin 13% á Austurlandi og 23% á Norðurlandi. Skýrist sú þróun að einhverju leyti af því að því að dvalarlengd ferðamanna hefur verið að styttast á síðustu misserum m.a. vegna styrkingu krónunnar sem hefur hækkað dvalarkostnað ferðamanna.

Segir að lokum að eðlilega dragi styttri dvalarlengd úr svigrúmi ferðamanna til að ferðast yfir langan veg hér á landi. Þar sem nær allir ferðamenn komi hingað til lands í gegn um Leifsstöð er ljóst að styttri dvalarlengd kemur harðast niður á þeim svæðum sem eru langt frá millilandaflugvellinum.