Gistinætur á hótelum landsins voru 357.100 í september. Það er 37% aukning miðað við september í fyrra. Gistinætur erlendra gesta voru 89% af heildarfjölda gistinátta en þeim fjölgaði um 38% á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 27%. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofu Íslands .

Flestar gistinætur á hótelum í septembermánuði voru á höfuðborgarsvæðinu eða 199.600, og er það 30% aukning milli ára. Alls voru 56% allra gistinátta á höfuðborgarsvæðinu. Næstflestar voru gistinætur á Suðurlandi eða um 52.600.

Flestir frá Bandaríkjunum

Flestir erlendir gestir komu frá Bandaríkjunum með 100.800 gistinætur. Næstflestir voru Þjóðverjar með 42.600 gistinætur og Bretar voru með 39.600 gistinætur.

Á tólf mánaða tímabili frá október 2015 til september 2016 voru gistinætur á hótelum 3,5 milljónir sem er 29% aukning miðað við sama tímabil og árið áður, segir í frétt Hagstofunnar.

Herbergjanýting var 80%

Herbergjanýting í september var 80% sem er aukning um rúm 13% frá því í fyrra. Nýtingin var best á Suðurnesjum, eða um 92,3%. Herbergjanýting á höfuðborgarsvæðinu var 87,2%.