Nú um áramótin hækkar gjald á tóbaki, bensíni og áfengi. Einnig tekur seinni áfanginn á breytingar á skattakerfinu gildi, en þá fækkar skattþrepum úr þremur í tvö. Neðra skattþrepið lækkar úr 22,68%, miðþrepið fellur út og efsta þrepið verður óbreytt 31,8%. Jafnframt lækka þrepamörkin milli neðra og efra þreps úr 836.990 kr. í 834.707 kr. Þetta kemur fram í frétt á vef Fjármálaráðuneytisins .

„Krónutölugjöld hækka almennt um 4,7% um áramótin sem jafngildir 2,5% hækkun að raunvirði. Gjald á annað tóbak en sígarettur, t.d. á neftóbak, hækkar þó um 63%-77% til samræmis við gjaldtöku af sígarettum. Helstu liðir þessara breytinga eru sýndir í eftirfarandi töflu. Kílómetragjald hækkar einnig um 4,7% en vegna mikils fjölda gjaldflokka er það ekki sýnt í töflunni,“ segir til að mynda í fréttinni.

Gistináttaskattur hækkar - tollar afnumdir

Um áramótin hækkar einnig gistináttarskattur úr 100 kr. upp í 300 kr. og er það í fyrsta skiptið frá árinu 2012 sem gistináttarskattur hækkar. Gjaldið var fyrst innheimt árið 2012.

Tekið er fram í fréttinni að um áramótin verða tollar á vörum á öllum vörum en landbúnaðarvörum og vörum öðrum en landbúnaðarvörum og tilteknum unnum matvörum afnumdir.

„ Um er að ræða síðari áfanga kerfisbreytingar til einföldunar á tollkerfinu, en í fyrri áfanganum voru tollar af fötum og skóm afnumdir. Af einstökum vörutegundum má nefna hvers konar byggingavörur, dýravörur, húsgögn, rafmagnstæki, bílavarahluti, íþróttavörur og leikföng. Rétt er að hafa í huga að tollar er einungis lagðir á vörur sem koma frá löndum utan EES nema Ísland hafi gert fríverslunarsamning við viðkomandi land,“ er einnig tekið fram.

Barnabætur hækka um 3%

Fjárhæðir barnabóta hækka um 3% milli áranna 2016 og 2017 en fjárhæðir vaxtabóta haldast óbreyttar. „ Þá hækka tekjuskerðingarmörk barnabóta um 12,5% og eignaskerðingarmörk vaxtabóta sömuleiðis um 12,5%. Sé tekið dæmi af barnabótum þá munu tekjuskerðingarmörkin hækka úr 200 þús.kr. á mánuði í 225 þús.kr. hjá einstæðum foreldrum og úr 400 þús.kr. á mánuði í 450 þús kr. hjá hjónum og sambýlisfólki, auk 3% hækkunar á bótafjárhæðunum. Einstætt foreldri með 2 börn, annað yngra en sjö ára, með 225 þús.kr. á mánuði hefði án framangreindra breytinga fengið 63.649 kr. á mánuði í barnabætur á árinu 2017 en fær eftir breytinguna 68.134 kr., á mánuði, sem er mánaðarleg hækkun um 4.485 kr. Hjá hjónum með 2 börn, annað yngra en sjö ára, með 450 þús.kr. á mánuði fer fjárhæð barnabóta úr 41.424 kr. á mánuði í 47.817 kr. á mánuði, sem er mánaðarleg hækkun um 6.393 kr. Rétt er að taka fram að barnabætur eru skattfrjálsar,“ er bent á í fréttinni.