*

mánudagur, 21. janúar 2019
Erlent 3. mars 2015 16:57

Gjaldeyrisforði Danmerkur hefur aldrei verið stærri

Gjaldeyrisforði danska seðlabankans er nú um 14.800 milljarðar íslenskra króna. Krafa á 10 ára ríkisskuldabréf er 0,3%.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Gjaldeyrisforði danska seðlabankans jókst um 172,9 milljarða danskra króna í febrúar og er nú stærri en hann hefur nokkru sinni verið, eða 737,1 milljarður danskra króna, andvirði um 14.800 milljarða íslenskra króna.

Aukningin í febrúar var nær að öllu leyti, eða 98%, vegna inngripa seðlabankans á gjaldeyrismarkaði til að viðhalda stöðugu gengi dönsku krónunnar gagnvart evru. Hins vegar virðist þrýstingurinn á krónuna hafa minnkað, því í yfirlýsingu sagði bankinn að hann hefði ekki þurft að selja krónur seinni hluta mánaðarins.

Seðlabankastjórinn Lars Rohde hefur gripið til nær fordæmislausra aðgerða til að koma í veg fyrir að krónan styrktist um of eftir að evrópski seðlabankinn ákvað að hefja skuldabréfakaup í miklum mæli fyrr á árinu. Hafa vextir verið lækkaðir fjórum sinnum og eru innlánsvextir seðlabankans neikvæðir um 0,75%.

Hætt hefur verið við skuldabréfaútgáfu danska ríkisins til óákveðins tíma og er markmiðið að lækka ávöxtunarkröfuna á dönsk ríkisskuldabréf og gera þau minna aðlaðandi fyrir fjárfesta. Það virðist hafa tekist því krafan á fimm ára skuldabréf er nú neikvæð og krafan á tíu ára bréf er um 0,3%. Engin skuldabréf þróaðs ríkis er með lægri kröfu nú fyrir utan svissnesk skuldabréf.