Skýrsla starfshóps um fjármögnun á stofnvegum til og frá höfuðborgarsvæðinu leggur til þrjár mismunandi lausnir á gjaldtöku við fjármögnun verkefnanna sem ættu að geta komist til framkvæmda strax á næsta ári. Heildarkostnaður við framkvæmdirnar eru metnar á 56 milljarða króna og gert er ráð fyrir að gjaldtakan yrði frá því að vera 50 til 100% af gjaldskrá Hvalfjarðarganga, það er frá 500 til 1000 krónum.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á sínum tíma skipaði Jón Gunnarsson starfshópinn í kringum hugmyndir sínar um einkafjármögnun á uppbyggingu vega milli Keflavíkur og Reykjavíkur, Reykjavíkur og Borgarness og svo aftur austur fyrir Selfoss. Hefur hann sagt að hann vilji að ferðamenn taki þátt í kostnaðinum við uppbyggingu vegakerfisins enda stór hluti notenda kerfisins.

Eyjólfur Ári Rafnsson formaður Samtaka atvinnulífsins er einn þeirra sem sat í starfshópi ráðherra samgöngumála og kynnti hann skýrsluna á samgönguþingi sem haldið var í Hveragerði í gær að því er Morgunblaðið greinir frá. Jón Gunnarsson sagði á þinginu ekki mögulegt að fjármagna allar þær framkvæmdir sem þyrfti að fara út í einungis með framlögum úr ríkissjóði.

Helstu leiðirnar til að fjármagna framkvæmdirnar sem taldar eru upp í skýrslunni er annars vegar hækkun eldsneytis- og bifreiðagjalda eða hins vegar gjaldtaka og voru þar þrír möguleikar nefndir þar til sögunnar. Starfshópurinn telur helsta ókost hækkunar á núverandi gjöldum þann að þau leggjast jafnt á alla landsmenn sem og að skatttekjurnar af þeim væru ekki merktar ákveðnum málaflokki.

Þeir þrír valkostir sem nefndir eru í gjaldtöku voru:

  • Innheimta gjald á mælda ekna vegalengd
  • Ómönnuð gjaldhlið sem lesa skráningarnúmer bíla
  • Svokallað vinjettukerfi, sem lesa af aðgangskortum í bílrúðum eða skráningarnúmer.

Vandinn við gjaldtökuna á vegalengd er dýrt gervihnattakerfi sem þyrfti að setja upp til þess. Vinjettukerfið er það sem talið er vera álitlegasta og ódýrasta lausnin en hún gerir ráð fyrir að hægt sé að kaupa aðgang á bensínstöðvum eða öðrum verslunum, sem væri þá í ákveðinn fjölda daga, mánuði eða ár.

Skýrslan gerir ráð fyrir að hægt yrði að hefja framkvæmdir á eftirfarandi vegköflum fáist til þess einkafjármagn strax á næsta ári:

  • Reykjanesbraut: Kaldárselsvegur - Krýsuvíkurvegur
  • Suðurlandsvegur: Biskupstungnabraut - Kambarætur
  • Suðurlandsvegur: Bæjarháls - Vesturlandsvegur
  • Vesturlandsvegur: Skarhólabraut - Hafravatnsvegur