Félag hópferðaleyfishafa mótmælir harðlega fyrirhugaðri gjaldtöku á hópbifreiðastæði við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en Isavia hefur tilkynnt að frá og með 1. mars nk. verði innheimt 7.900 kr. gjald í stæðin fyrir litla hópferðabíla og 19.900 fyrir hópferðabíla af algengustu stærð og stærri.

Stærstu fyrirtækin í hópferðum yrðu samkvæmt hinni nýju gjaldskrá að greiða mörg hundruð þúsund krónur að lágmarki á dag í bílastæðagjöld. Til samanburðar má nefna að gjald per hópferðabifreið sem sækir farþega á Gatwick-flugvöll við Lundúnir er sem samsvarar 2.400 íslenskum krónum og víða er engin gjöld af þessu tagi innheimt.

Ísland á í alþjóðlegri samkeppni sem áfangastaður ferðamanna og gæta verður hófs í allri gjaldtöku, ekki bara hvað varðar flugvallargjöld, heldur líka hvað snertir kostnað ferðamanna við að komast til og frá flugvelli. Hið fyrirhugaða gjald er svo hátt að fyrirtækin munu þurfa að hækka gjaldskrá sína um þriðjung að lágmarki. Þá er fyrirvarinn sem Isavia gefur aðeins þrír mánuðir.

Fyrirtæki í hópflutningum hafa fyrir löngu auglýst verð á sinni þjónustu og því þurfa þau að taka á sig þennan mikla kostnað, kostnað sem er sligandi og með engu móti réttlætanlegur.

Engin önnur atvinnugrein sem notast við flugstöðina þarf að greiða viðlíka upphæðir fyrir sambærilega þjónustu. Félag hópferðaleyfishafa telur brýnt að yfirvöld samgöngumála grípi inn í og stöðvi þessa gjaldtöku, sem er langt fram úr öllu hófi.