Samkeppniseftirlitið hefur samkvæmt heimildum Markaðarins , tekið þá ákvörðun að hefja formlega rannsókn á háttsemi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar fyrir skráningu verðbréfa. Rannsóknin snýst um það hvort félagið hafi misnotað markaðsráðandi stöðu og þar með brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga.

Í bréfi Samkeppniseftirlitsins sem Markaðurinn komst yfir og er dagsett 18. maí er komið inn á að „hvers konar aðgerðir sem eru til þess fallnar að koma í veg fyrir að nýir keppinautar geti haslað sér völl á markaði eru að jafnaði metnar alvarlegar í samkeppnisrétti“.

Samkeppniseftirlitinu barst fyrr á árinu kvörtun frá Verðbréfamiðstöð Íslands, sem fékk starfsleyfi sem verðbréfamiðstöð síðasta haust. Kvörtunin varðaði háttsemi Nasdaq sem þeir vilja meina að sé ómálefnaleg og til þess fallin að vinna gegn því að nýr keppinautur geti haslað sér völl á markaðinum.

Forsvarsmenn Verðbréfamiðstöðvar Íslands telja að Nasdaq verðbréfamiðstöð hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að halda áfram að innheimta svokölluð vörslugjöld af reikningsstofnunum vegna verðbréfa sem hafa verið flutt frá Nasdaq til Verðbréfamiðstöðvar Íslands. Að mati þeirra á eiginleg varsla verðbréfa sér stað hjá félaginu þegar bréfin hafa verið flutt til þess og því séu forsendur gjaldtöku Nasdaq brostnar.

Í bréfi Samkeppniseftirlitsins til Nasdaq óskar það eftir því að Nasdaq geri skýra grein fyrir því á hvaða grundvelli félagið telji réttlætanlegt að halda áfram að rukka vörslugjöld af reikningstofnunum vegna bréfa sem flutt hafa verið frá Nasdaq til Verðbréfamiðstöðvar Íslands. Einnig vill Samkeppniseftirlitið að Nasdaq útskýri hvernig háttsemi félagsins fái samrýmst 11. gr. samkeppnislaga, en sú grein bannar misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Nasdaq hefur frest til mánaðamóta til að svara bréfi Samkeppniseftirlitsins.