Í stjórnarsáttmálanum segir að við endurskoðun laga um veiðigjöld þurfi að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu. „Auðlindagjöld eiga annars vegar að vera greiðsla fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind og hins vegar arðgreiðslur af nýtingu hennar," segir í sáttmálanum.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), segir að heilt yfir lítist henni ágætlega á stjórnarsáttmálann.

„Það virðist vera samhljómur með ríkisstjórnarflokkunum um að gefa greininni svigrúm til þess að starfa án þess að farið sé í meiriháttar kerfisbreytingar," segir Heiðrún Lind. „Í sáttmálanum er vikið að veiðigjaldinu, sem er eðlilegt enda er þetta síðasta árið sem gildandi reikniregla samkvæmt lögum um veiðigjald er í gildi. Það mun því koma inn á borð Alþingis setja nýja reglu eða framlengja þeirri sem nú er. Veiðigjaldið fyrir fiskveiðiárið 2017-2018 er mjög hátt og erfitt fyrir mjög marga þannig að það þarf að fara fram skoðun á forsendum gjaldtökunnar og hvort að þær forsendur fái að öllu leyti staðist."

Heiðrún Lind segir komin sé góð reynsla á veiðigjaldið enda hafi það verið innheimt síðan árið 2004.

„Við erum farin að koma betur auga á hvar eru gallar í forsendum. Ég held að allir séu sammála um að í flókinni skattheimtu eru agnúar sem verður að sníða af með tíð og tíma. Það er í raun það sem við sjáum fyrir okkur að verði gert við endurskoðun laganna. Stjórnarslitin töfðu þessa vinnu því þetta hefði þurft að koma inn á borð Alþingis fyrr. Miðað við stöðuna í greininni tel ég mjög óskynsamlegt að hækka veiðigjaldið. Ef einhverjir í pólitík vilja tala fyrir aukinni samþjöppun í sjávarútvegi þá geta þeir líklega talað um hækkun veiðigjalds. Eins og staðan er núna þá tel ég að gjaldtakan sé komin vel úr hófi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð