Skiptum á smálánafyrirtækinu Credit one ehf, sem áður hét Kredia, hefur verið lokið, en það var skráð til húsa á Suðurgötu á Siglufirði. Þegar skiptum á félaginu sem úrskurðað var í gjaldþrot 12. apríl 2017 var lokið 28. desember síðastliðinn kom í ljós að engar eignir fengust upp í lýstar kröfur á félagið, sem námu 252,4 milljónum króna, að því er fram kemur í Lögbirtingarblaðinu.

Þar með talið eru háar kröfur frá sýslumanni og tollstjóra, auk stórrar kröfu frá Smáláni, öðru gjaldþrota smálánafyrirtæki að því er RÚV hefur eftir Ingvari Þóroddssyni skiptastjóra í þrotabúinu.

Bæði fyrirtækin höfðu verið sektuð ítrekað fyrir brot á lögum, en áfrýjunarnefnd neytendamála komst að þeirri niðurstöðu að lántakar hjá félögunum hefði verið leyndir kostnaðinum sem braut gegn upplýsingaskyldu.

Eins og sagt var frá í fréttum frá 2014 voru bæði félögin skráð í eigu Leifs Alexanders Haraldssonar, en síðan hafi endanlegur eigandi þeirra verið slóvenski fjárfestirinn Mario Megela. Síðar sögðust öll smálánafélögin, Hraðpeningar, Múla, Smálán 1909 og Kredia, vera orðin dönsk þar sem aðrar reglur gilda, en eignharhald félaganna hafði verið flutt til Danmerkur undir félagið e-Commerce 2020 eins og Viðskiptablaðið sagði fyrst frá .

Stofnaði margskonar félög

Félagið DCG ehf. sem áðurnefndur Leifur var skráður fyrir en Megela sagður eiga í, átti þá, ásamt eignarhlutnum í Kredia, einnig Hópkaup, Heimkaup og hugbúnaðarfyrirtækið Spoton, en síðan keypti það innheimtufyrirtækið Inkasso. Eignir þrotabús Heimkaup ehf, sem Leifur stofnaði en hefur ekki haft neina aðkomu að síðan þá, voru seldar árið 2014, eftir um eins árs rekstur til félagsins Skífan ehf, sem nú heitir Wedo ehf.

Mikið hefur breyst í eignarhaldi fyrrnefndra netverslana síðan, en fyrir rúmu ári sagði Viðskiptablaðið frá því að Skeljungur hefði keypt þær. Sagði forstjóri Skeljungs til skýringar á viðskiptunum að félagið vildi veðja á netverslun . Síðan þá hefur netverslun vaxið mikið , en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um var til að mynda mikill vöxtur kringum sérstaka afsláttardaga í nóvember.

Fréttin hefur verið uppfærð.