Gustað hefur um íslensku flugfélögin síðustu misseri. Eins og alkunna er hefur WOW air glímt við mikinn fjárhagsvanda og einnig hefur gefið á bátinn hjá Icelandair Group. Fjárhagsstaða Icelandair er reyndar miklu sterkari en fjárhagsstaða WOW enda leit út fyrir það um tíma að Icelandair myndi kaupa WOW þó á endanum hafi ekkert orðið af þeim viðskiptum. Primera Air varð síðan gjaldþrota í byrjun október.

„Gjaldþrot Primera Air kom mér verulega á óvart enda var það ekki að heyra á stjórnendum fyrirtækisins að það væri að glíma við mikinn fjárhagsvanda, þvert á móti,“ segir Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group, í viðtali í tímariti Frjálsrar verslunar, sem kom út á dögunum.

„Þegar ársreikningur WOW air var loks birtur kom í ljós staða félagsins var miklu verri en maður hafði gert sér grein fyrir. Fram að því hafði stjórnandi og aðaleigandi félagsins talað eins og allt væri í góðum málum. Ég verð að viðurkenna að þegar maður hlustaði á hann þá hugsaði maður með sér hvað væri eiginlega í gangi hjá okkur í Icelandair. Mér fannst ósanngjarnt þegar talað var um Icelandair og WOW í sömu andrá því staða félaganna var raun gjörólík. Það var alltaf ljóst að fjárhagsstaða Icelandair var sterk, efnahagsreikningurinn sterkur en hins vegar gagnast það svo sem lítið ef reksturinn er ekki að skila hagnaði. Það var verkefnið sem við stóðum frammi fyrir.

Ég verð að viðurkenna að það kom mér mjög á óvart þegar fréttir bárust af því að eigandi WOW hefði komið til Icelandair með það fyrir augum að Icelandair keypti WOW og þá sérstaklega miðað við yfirlýsingar hans í garð Icelandair síðustu ár, þar sem hann ítrekað talaði um það hvað Icelandair væri lélegt flugfélag.“

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst [email protected] .