„Gleðitíðindin eru þau að meirihlutinn heldur. Við höfum alltaf talað fyrir því að við halda áfram í þessum meirihluta í einhvers konar mynd,“ segir Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna.

Hún segir þó sinn flokk þurfa og geta gert betur en hann mælist nú, í nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið , með 10,3% fylgi samanborið við 13,3% í síðustu könnun Viðskiptablaðsins .

„Fyrir Vinstri græn þá þurfum við að gera betur ef við ætlum að vera leiðandi afl í borginni. Við viljum heyra hvað fólk hefur að segja en við þurfum líka að koma stefnu okkar á framfæri. Það er verkefnið framundan,“ segir hún.

Aðspurð segist hún ekki viss hvort kjósendur á vinstri vængnum gætu verið að refsa flokknum fyrir setu í ríkisstjórn. „Ég bara veit það ekki. Ég vona að vinstri menn átti sig á hvaða flokkur er lengst til vinstri í borginni. Ég bind vonir við það að fylgið við okkur eigi eftir að aukast.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðismanna segja báðir að línur í borginni séu að skýrast og verða skarpari. Borgarstjóri sakar þó Sjálfstæðismenn um að vera með óljósar hugmyndir sem horfi til fortíðar meðan oddvitinn stærsta flokksins í minnihlutanum í borginni segist viss um að borgarbúar vilji breytingar .