Slitabú Glitnis hefur farið fram á lögbann á birtingu upplýsinga er varða persónu- og einkamálefni fyrrverandi viðskiptavina Glitnis HoldCo ehf.

Föstudaginn 13. október s.l. fór Glitnir HoldCo ehf. þess á leit við sýslumannsembættið á höfuðborgarsvæðinu að lögbann verði lagt við birtingu Stundarinnar og Reykjavík Media ehf. á fréttum eða annarri umfjöllun sem byggja á eða eru unnar úr gögnum er varða einkamálefni verulegs fjölda fyrrverandi viðskiptavina Glitnis sem eru því bundnar bankaleynd.

Þá hefur Glitnir ráðið breska lögmannsstofu til að gæta hagsmuna sinna vegna umfjöllunar The Guardian sem byggir á sömu gögnum. Glitnir hefur jafnframt tilkynnt umrætt brot til Fjármálaeftirlitsins sem fer með rannsókn málsins.

UPPFÆRT - Fallist á lögbannskröfuna samkvæmt fréttatilkynningu:

Fyrr í dag féllst embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á beiðni Glitnis HoldCo ehf. um að lögbann yrði lagt við tilteknum fréttaflutning Útgáfufélagsins Stundarinnar ehf. og Reykjavík Media ehf.

Nánar tiltekið var þess krafist að lögbann yrði lagt þá þegar við birtingu Útgáfufélagsins Stundarinnar ehf. og Reykjavík Media ehf. á öllum fréttum eða annarri umfjöllun er byggði á eða væri unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum Glitnis HoldCo ehf. sem bundnar væru bankaleynd samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002.

Nefnd krafa var lögð fram þar sem Glitnir HoldCo ehf. taldi yfirgnæfandi líkur á því að umfjöllun umræddra fréttamiðla byggði á gífurlegu magni gagna sem innihéldi upplýsingar um persónulega fjárhagsmálefni þúsunda fyrrverandi viðskiptavina Glitnis HoldCo ehf. Stjórn Glitnis HoldCo ehf. taldi því nauðsynlegt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að gæta hagsmuna sinna viðskiptavina.