Í lok sumarþings voru samþykktar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Markmið laganna voru að aðlaga íslenskan rétt nýju regluverki Evrópusambandsins á sviði fjármálamarkaðar, CRD IV, sem miðast við alþjóðlega Basel III staðalinn. Meðal stærstu breytinga á lögunum sem innleiddar voru eru svokallaðir eiginfjáraukar sem fela í sér að fjármálafyrirtæki þurfa undir vissum skilyrðum að halda eftir hærra hlutfalli af eigin fé en lögbundið lágmark sem er 8% af áhættugrunni. Ljóst er því að breytingarnar munu hafa töluverð áhrif á rekstur bankanna en þó eru þær aðeins fyrsta skrefið í frekari breytingum sem eru til þess fallnar að aðlaga íslenskt fjármálakerfi að Basel III.

Reglur um bónusa festar í sessi

Eitt helsta þrætuepli frumvarpsins voru ákvæði um kaupauka bankastarfsmanna. Í nýjum lögum segir að „samtala ákvarðaðra breytilegra starfskjara starfsmanns sem telst hafa veruleg áhrif á áhættusnið fjármálafyrirtækis, að meðtöldum þeim hluta starfskjara sem frestað er, má á ársgrundvelli ekki nema hærri fjárhæð en 25% af föstum starfskjörum hlutaðeigandi starfsmanns“. Í CRD IV regluverkinu er hins vegar gert ráð fyrir því að hlutfall breytilegra starfskjara (þ.e. kaupauka) geti verið 100% af föstum starfskjörum og að heimild sé til staðar að hækka hlutfallið í 200% á hluthafafundi. Reglur hér á landi eru því mun þrengri en gerist í Evrópu.

Mikil umræða hefur átt sér stað síðustu mánuði um þessar reglur. Í samtali við Viðskiptablaðið í þarsíðustu viku sagði Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, að núverandi lög væru til þess fallin að ýta undir launaskrið hjá starfsmönnum fjármálafyrirtækja og þau geti jafnframt aukið rekstraráhættu minni fyrirtækja. „Ég hef alltaf talið það æskilegt að það séu einhverjar hömlur á viðskiptabönkunum, sem eru kerfislega mikilvægar stofnanir,“ sagði Hannes. „Áhættutaka í bönkunum getur valdið samfélagslegum skaða en áhættutaka í verðbréfafyrirtækjum getur ekki valdið neinum skaða nema hluthöfum þeirra. Ríkið þarf aldrei að hlaupa undir bagga þegar verðbréfafyrirtæki fer á hausinn.“

Vildu margir ganga svo langt að leggja blátt bann við greiðslu kaupauka til starfsmanna fjármálafyrirtækja en á meðal þeirra sem viðruðu slíkar hugmyndir voru Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, og Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Í minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu mátti hins vegar lesa annan tón. Þar var tekið undir þá gagnrýni að það að setja öll fjármálafyrirtæki undir sama hatt geti leitt til meiri kostnaðar fyrir smærri aðila á markaði. Þar segir einnig orðrétt: „hámark breytilegra starfskjara við 25% er mun lægra en þekkist almennt í nágrannaríkjum okkar og telur ráðuneytið að skaðlausu megi hækka hlutfallið upp í 50%“.

Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar kom fram að ólík sjónarmið höfðu verið uppi innan hennar, en að samhljómur væri um að reglur um kaupauka ættu ekki að vera til þess fallnar að ýta undir áhættutöku starfsmanna fjármálafyrirtækja. Nefndin ákvað að best væri að fella brott þær greinar frumvarpsins sem sneru að breytingum á kaupaukum og að styrkja ætti frekar lagastoð undir núverandi reglur. Þar kemur einnig fram að við vinnu á frekari innleiðingu á Evróputilskipuninni gefst tækifæri til að útfæra reglur um kaupauka nánar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .