Hlutabréf bandaríska bílaframleiðandans General Motors (GM) verða tekin inn í S&P 500-hlutabréfavísitöluna á nýjan leik á fimmtudag. Heil fjögur ár eru síðan óskað var eftir því að GM yrði tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt bandarískum gjaldþrotalögum. Það var í júní árið 2009 og hlutabréf félagsins tekin út úr vísitölunni.

Rifjað er upp í umfjöllun bandaríska fjölmiðilsins The Detroit News um hrakfarir og endurreisn GM að bandaríska ríkið hafi eignast 61% hlut í bílaframleiðandanum þegar það kom honum og reyndar fleiri fyrirtækjum í bílageiranum um svipað leyti til hjálpar. Ríkið hefur síðan þetta var unnið að því að losa sig við eignarhluti í GM. Það var t.d. gert með endurskráningu hlutabréfanna á markað í nóvember árið 2010. Ríkið á nú rétt um 16% í GM. Í The Detroit News segir að bandaríska fjármálaráðuneytið, sem fer með eignarhlutinn í GM, ætli að losa sig alfarið við GM úr bókum sínum í mars á næsta ári.