Víkingur AK kom til Vopnafjarðar í gærmorgun með tæplega 900 tonna afla. Þar af var makríl um 750 tonn.

Þetta kemur fram á heimasíðu HB Granda.

Í viðtali við Hjalta Einarssonar skipstjóra á heimasíðunni segir að makrílveiðin hefur verið sveiflukennd en þó hafa komið góð skot í veiðina inn á milli. Á mánudag urðu menn varir við töluvert magn suður af Hvalbak og hafa skipin verið þar að veiðum.

„Við vorum töluvert austar þegar fréttir bárust af því vart hefði orðið við vaðandi makríl suður af Hvalbak. Við vorum ekki komnir á svæðið fyrr en undir kvöld og náðum að taka eitt 260 tonna hol áður en haldið var til Vopnafjarðar,“ segir Hjalti.

Að sögn Hjalta hefur síld ekki verið til mikilla vandræða sem aukaafli með makrílnum fram að þessu en þó hafi síld fengist í einu holinu í veiðiferðinni.

„Við reynum að sneiða hjá síldinni á makrílveiðunum enda hefjast síldveiðar væntanlega ekki fyrr en hreinum makrílveiðum lýkur,“ sagði Hjalti en hann á von á því að það muni taka tæpa tvo sólarhringa að landa afla úr skipinu og því komist Víkingur væntanlega aftur á miðin á morgun.