Getlocal er íslenskt sprotafyrirtæki í ferðatækni (e. traveltech) en í dag gerði fyrirtækið nýja lausn sína opinbera. Þar geta heimamenn veitt ferðamönnum góð ráð á nýstárlegan hátt – með því að tengja þá saman sem hafa svipaðan smekk og eru „svipaðar týpur“.

Einar Þór Gústafsson, einn stofnenda Getlocal, stýrir þró­ un á lausninni en fyrirtækið var stofnað í október 2016. Í dag starfa þar átta manns, þar af helmingur í hugbúnaðarþróun. Fyrirtækið stefnir á sókn á erlenda markaði en Getlocal starfrækir nú þegar bókunarþjónustu á getlocal.is sem er tengd við nýju lausnina. Þegar hafa þúsundir ferðamanna bókað ferðir og af­ þreyingu í gegnum ferðasöluvefinn þeirra.

Til tunglsins og heim

„Hugmyndin fæddist þegar ég var að vinna fyrir Meniga sem framkvæmdastjóri vöruþróunar. Ég byrjaði þar 2010, þegar Meniga var enn fimm manna sproti, en það fyrirtæki náði mjög góðu flugi og flýgur enn. Starfinu fylgdu þó gríðarleg ferðalög til fjarlægra landa.

Ég flaug út um allan heim, ég reiknaði það einhvern tímann út að ég hafi flogið til tunglsins og baka en ég nánast bjó í flugvél á tímabili. Alltaf í nýju landi – nýrri borg. Það sem þessum ferðalögum fylgdi, eða ferðalögum yfirhöfuð, var að maður vildi nýta ferðina mjög vel. Sér í lagi ef mað­ur var bara að fara í skamman tíma. Maður tímir eiginlega ekki að fara út að borða á einhverjum leiðinlegum stað,“ segir Einar Þór.

Hann segir að því sé mikilvægt að finna þessi góðu ráð þegar maður heimsækir nýjan stað. „Leit á Google, Foursquare og Tripadvisor skilar oftast mjög mörgum niðurstöðum og erfitt er að finna góð ráð sem hægt er að treysta,“ að mati Einars. Hann leitaði því til heimamanna sem vissu hvert átti að fara, en að sögn Einars er það markmið Getlocal að ferðamenn fái sem besta upplifun meðan á dvöl þeirra stendur.

Stefna til 10-20 landa

„Við höfum smíðað gott sölukerfi, öfluga leitarvél og last minute tilboðin okkar hafa slegið í gegn en nú erum við einnig að hefja þróun á gervigreind sem felur í sér pörunar og meðmæla algrím en þar eigum við mikla og flókna vinnu fyrir höndum. Við erum um þessar mundir að ræða við fjárfesta til að koma með okkur í það ferðalag. Það er samt sem áður okkar von að vera komin í 10 til 15 lönd fyrir áramót ef allt gengur að óskum,“ bætir hann við að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .