Nýjasta leikjatölvan frá Nintendo, Nintendo Switch, er líklega sú söluhæsta sem fyrirtækið hefur sett á markað í mörg ár, jafnvel frá upphafi að því er leikjatímaritið Famitsu heldur fram.

Fyrirtækið sjálft hyggst ekki birta opinberar sölutölur fyrr en í apríl en tímaritið segir að meira en 330 þúsund tölvur hafi verið seldar fyrstu þrjá dagana í Japan, sem er mun meira en hafi verið með Wii U tölvuna frá fyrirtækinu.

Jafnframt virðast upplýsingar frá Evrópu og Bandaríkjunum sýna góða sölu og vísar frétt BBC um málið í frétt The Daily Telegraph um að sala á tölvunni hafi verið betri en á fyrri tölvum Nintendo. Jafnframt hafi yfirmaður Nintendo í Bandaríkjunum haldið því fram að salan hafi farið fram úr sölunni á Nintendo Wii, sem fór á markað árið 2006, en hún seldist í 100 milljónum eintaka.

Í viðskiptum í kauphöllinni í Tokyo í nótt hækkaði gengi bréfa Nintendo um 1,2% og hefur það ekki verið jafnhátt í tvo mánuði.

Nintendo Switch er bæði hægt að tengja við sjónvörp og spila leiki af henni þannig en einnig er hægt að halda á henni og spila leiki á henni beint. Mikið er í húfi fyrir leikjafyrirtækið enda náði salan á Wii U tölvunni ekki að jafngilda sölu upphaflegu Wii tölvunnar.