Tillögur nefndar, sem Þráinn Eggertsson stýrði, um endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands frá árinu 2015 og nýlegt bréf umboðsmanns Alþingis til bankaráðs Seðlabankans voru samhljóða um að draga ætti úr völdum seðlabankastjóra. Már Guðmundsson seðlabankastjóri telur ekki að völd seðlabankastjóra séu of mikil.

„Það má ekki gleyma því að stærstu þættirnir, þar sem mestu völdin eru, eins og í peningastefnunni, þá deilir seðlabankastjórinn þeim með fjórum öðrum. Ég get ekki bara tekið einhliða ákvarðanir í því af því að þá fengi ég það ekki í gegnum nefndina. Varðandi þessa stóru þætti sem að lúta að fjármálastöðugleika þá er það líka samvinnuverkefni Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og aðallega fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Síðan varðandi gjaldeyrisforðann þá er mótuð ákveðin rammastefna varðandi varðveislu og fjárfestingu forðans sem bankaráð verður að samþykkja. Allt sem lýtur að stærð gjaldeyrisforðans, það er oft mótað í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið því hér áður fyrr þurftu þeir að taka lánin til þess að fjármagna það. Að stefna í slíka forðastærð sem er núna var gert í slíku samráði og tengdist undirbúningi undir losun fjármagnshafta. Allt sem lítur að fjármagnshöftunum og losun þeirra er líka samvinnuverkefni. Því í sumum tilfellum þarf samþykki ráðherra um ákveðna hluti og svo lagabreytingar á öðrum sviðum. Þannig að ég held að þetta sé bara goðsögn. Auðvitað er seðlabankinn sjálfstæður og í gegnum það hefur sá sem gegnir starfi seðlabankastjóra auðvitað töluvert vægi og ákveðin völd en það myndi aldrei ganga nema með því að sannfæra þá sem eru að vinna í þessum málum í kringum hann“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .