Ferðaþjónustufyrirtækið Kynnisferðir skilaði í fyrra 500,1 milljóna króna hagnaði, en árið 2014 nam hagnaður félagsins 424,5 milljónum króna. Veltan jókst úr 4,7 milljörðum króna árið 2014 í rétt rúma sex milljarða í fyrra. EBITDA hækkaði úr 799,5 milljónum króna árið 2014 í 1.189,1 milljón í fyrra.

Eignir félagsins námu í árslok 5,4 milljörðum króna og þar af voru varanlegir rekstrarfjármunir 4,3 milljarðar króna. Þar af eru bifreiðar bókfærðar á 2,4 milljarða og fasteignir á 1,7 milljarð króna. Skuldir félagsins voru um áramótin 4,8 milljarðar króna og þar af voru skuldir við lánastofnanir 3,5 milljarðar króna. Eigið fé nam um síðustu áramót 688,8 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 12,66%

Töluvert var fjárfest á árinu og keyptir varanlegir rekstrarfjármunir námu í fyrra tæpum þremur milljörðum króna. Skiptast fjárfestingarnar nær jafnt á milli fasteigna og bifreiða.

Stjórn félagsins leggur til að hagnaður ársins verði fluttur til næsta árs.