Um 25.500 tonn hafa veiðst á makríl við Ísland það sem af er árinu af 166.000 tonna heildarkvóta. Veiðarnar hafa gengið vel upp á síðkastið og er makríllinn stór og fallegur, allt að 430 grömm í meðalvigt.

Beitir NK var á leið til Neskaupsstaðar með 600 tonna vinnsluskammt í gær eftir góðan túr vestur af Vestmannaeyjum. Var áætlað að landa úr honum í gærkvöldi. Síðastliðinn sunnudag landaði Beitir 870 tonnum og segir Tómas Kárason skipstjóri að veiðarnar hafi gengið ljómandi vel að undanförnu.

„Við vorum komnir nánast að Reykjaneshryggnum. Svo er líka makríll í djúpunum suður af landinu. En þar er meiri hætta á því að fá síld með. Síldin er léleg á þessum tíma og vont að hafa hana í bland við makrílinn. Það hefur verið ágætis veiði en hún hefur verið dálítið blettótt," segir Tómas.

Sjá nánar í Fiskifréttum.