Viðræður um að bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs og Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur og
framkvæmdastjóri hjá Time Warner gangi til liðs við Geysi Green Energy eru á lokastigi að því er kemur fram í tilkynningu.  Samanlögð fjárfesting hinna nýju hluthafa mun jafngilda um 8,5% af hlutafé Geysis Green Energy.

Margar spár benda til þess að orkuþörf heimsins geti vaxið um að helming á næstu 50 árum og að stöðugt
hærra hlutfall þessarar orkuþarfar verði mætt með endurnýjanlegri orku í stað brennslu jarðefnaeldsneytis.
Evrópusambandið hefur sett sér það markmið að fyrir árið 2020 verði 20% aukning á framleiðslu raforku
úr endurnýjanlegum orkugjöfum og ætla Bandaríkjamenn sér að tvöfalda slíka framleiðslu á næstu 10
árum.


Í tilkynningunni kemur fram að nýjar rannsóknir í Bandaríkjunum sýna ennfremur að mögulegt er að jarðvarmi geti svarað allt að 20% af orkuþörf Kaliforníuríkis þegar fram í sækir og að hlutfallið geti orðið 60% í Nevada og 30% á Hawaii. Spár um fjárfestingaþörf benda til þess að 10 milljarða bandaríkjadala þurfi til að halda áfram yfirstandandi jarðvarmaframkvæmdum og 40 milljarða bandaríkjadala til að þróa þær auðlindir sem þekktar eru fram til ársins 2025.