Goldman Sachs, fjárfestingarbankinn alþjóðlegi, hefur nú sótt um einkaleyfi fyrir rafgjaldmiðli sem hefur hlotið nafnið ‘SETLcoin’. Financial Times greinir frá þessu.

SETLcoin myndi að sögn bankans koma til með að virka sem hraðvirkur greiðslumiðill í viðskiptum með eignir á borð við hluta- og skuldabréf.

Bankar hafa keppst við að beisla kraftinn sem býr í blockchain-hugbúnaðinum sem liggur að baki rafmiðilsins vinsæla jafnt sem alræmda Bitcoin.

Blockchain virkar sem eins konar almenningsbókhaldskerfi í kringum viðskipti með gjaldmiðilinn, til að tryggja að enginn geti fjölfaldað eða falsað sér aukalegar stafrænar einingar. Áhugasamir geta skoðað nánari útskýringu á ferlinu með því að smella hér.

Skýrsla greiningaraðila sem kom út fyrir skömmu gaf í skyn að blockchain-búnaðurinn gæti skorið niður heila 20 milljarða bandaríkjadala í kostnaðarliðum stærri banka.