Goldman Sachs fjárfestingabankinn telur tilefni til að vara við bólumyndun á bandarískum mörkuðum. Þetta kemur fram á vef Bloomberg fréttaveitunnar.

Helstu hlutabréfavísitölur vestanhafs hafa hækkað nokkuð skart eftir að Donald Trump tók við forsetaembættinu. Mikil bjartsýni er meðal fjárfesta, sem hafa veðjað á skattalækkanir og aukið frelsi.

Fjárfestingabankinn telur þó að fjárfestar gætu hafa farið fram úr sér í allri gleðinni og að markaðir endurspegli ekki raun þróunina í hagkerfinu.

David Kostin, sem er með yfirumsjón yfir bandarískum hlutabréfum hjá bankanum, telur að fjárfestar geti orðið fyrir vonbrigðum þegar fram í sækir.

Kostin bendir á að greiningaraðilar vænti nú 1% lakari tekjuvexti árið 2017, en þrátt fyrir það hefur S&P500 vísitalan hækkað um allt að 10% frá kosningum.

Bjartsýni hefur ekki mælst jafn mikil í 13 ár og þá hafa hlutabréfavísitölur slegið ný met. Dow Jones fór til að mynda nýlega yfir 20.000 stigin.