Eftir að hafa setið í stjórn fasteignaþróunarfélagsins Festir ehf. í nokkur ár hefur Róbert Aron Róbertsson tekið við framkvæmdastjórn félagsins.

„Við erum fyrst og fremst að vinna úr þeim verkefnum sem félagið er með, sem dæmi má nefna Héðinsreitinn þar sem við erum nú í deiliskipulagsferli með borginni,“ segir Róbert sem segir of snemmt að segja til um hvort þar muni fyrst og fremst verða minni íbúðir líkt og mikið hefur verið í umræðunni að þurfi.

„Hugmyndin er auðvitað að vera með breiða skírskotun. Við viljum að allt sé eins vel úr garði gert og hægt er, en inn í svona félag þarf að koma saman verkfræðikunnátta og viðskiptakunnátta því hér er ætlunin að hanna húsnæði sem við teljum að markaðurinn vilji.“

Róbert hefur lengi unnið fyrir Ólaf Ólafsson, aðaleiganda félagsins, en eftir nokkur ár hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins tók hann við eignastýringu Kjalar, félags Ólafs og flytur hann í kjölfar hrunsins út til að sinna verkefnum þar. „Ég var til að byrja með í London, þar sem ég var mikið að vinna með málefni Alfesca, sem var tekið af markaði hér á Íslandi árið 2009,“ segir Róbert.

„Þá fór ég til Parísar í Frakklandi þar sem ég bjó í eitt ár og svo fluttum við hjónin saman til Sviss árið 2010 þar sem ég hélt þeirri vinnu áfram ásamt því að vinna með svissnesku sjóðstýringarfyrirtæki í ýmsum verkefnum.“

Róbert er giftur Elínu Guðlaugu Stefánsdóttur og eiga þau saman tvær dætur á aldrinum fjögurra og eins árs. „Aðaláhugamál mín fyrir utan fjölskylduna eru skíði og golf, og svo er ég eitthvað í veiðinni,“ segir Róbert sem naut þess að geta stundað skíðamennskuna í Ölpunum í þau fimm ár sem hann bjó þar.

Róbert hefur stundað golfið frá því á menntaskólaárum en á yngri árum var hann í þessum helstu boltaíþróttum. „Það skemmtilega við golfið er þessi keppni við sjálfan þig, því árangurinn er algerlega mælanlegur. Þú ert með forgjöf og svo ferðu út á völl og þá veistu nákvæmlega hvort þú ert að bæta þig eða ekki. Það er ekki háður tilfinningu eins og til að mynda í skíðunum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .